Körfubolti

Blóðug saga hjá Michael Jordan í nýjasta þætti af The Last Dance

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan treður boltanum með tilþrifum í körfuna í leik með Chicago Bulls.
Michael Jordan treður boltanum með tilþrifum í körfuna í leik með Chicago Bulls. Getty/Craig Hacker

Madison Square Garden höllin hjá New York Knicks var í miklu uppáhaldi hjá Michael Jordan og þar átti hann marga af sínum bestu leikjum á NBA-ferlinum.

Michael Jordan vissi að leikur hans í Madison Square Garden tímabilið 1997-98 yrði mögulega hans síðasti í húsinu og kappinn vildi halda upp á það með sérstökum hætti.

Jordan talaði um þennan síðasta leik með Chicago Bulls í New York í fimmta þættinum af „The Last Dance“ en leikurinn fór fram 8. mars 1998.

Jordan ákvað að draga fram fyrstu Air Jordan skóna sem höfðu slegið í gegn með svo eftirminnilegum hætti þegar hann kom inn í NBA-deildina 1984. Það kostaði hans hins vegar mikinn sársauka að spila í skóm sem hann hafði ekki spilað í svo lengi.

„Það var farið að blæða út fótunum mínum fyrir hálfleik en ég var að spila vel og vildi ekki fara úr þeim,“ rifjaði Michael Jordan. Það er óhætt að segja að hann hafi átt góðan leik því Jordan endaði leikinn með 42 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar.

Eftir leikinn var hins vegar komið að stund sannleikans. Uppátækið hans hafði haft sín áhrif á þessa verðmætu fætur.

„Ég tók skóna af mér eins fljótt og ég gat. Þegar ég komst úr þeim þá voru sokkarnir gegndrepa af blóði,“ sagði Michael Jordan.

„Það var gaman að koma hingað til að spila en rifja um leið upp gömlu góðu tímana sem ég hef átt í þessu húsi. Skórnir voru hluti af því. Ég er samt að drepast í fótunum,“ sagði Michael Jordan á blaðamannafundi eftir leikinn.

Fæturnir voru ekki verra en það að tveimur dögum seinna þá skoraði Jordan 37 stig í sigri á Miami Heat. Michael Jordan var með 28,7 stig að meðaltali á lokaári sínu með Chicago Bulls.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×