Fótbolti

Sara og Evrópumeistararnir mæta Juventus og óvenjulegur Íslendingaslagur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lyon varð Evrópumeistari í ágúst eftir 3-1 sigur á Wolfsburg í úrslitaleik á Spáni.
Lyon varð Evrópumeistari í ágúst eftir 3-1 sigur á Wolfsburg í úrslitaleik á Spáni. getty/Alejandro Rios

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Lyon mæta Ítalíumeisturum Juventus í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en dregið var í dag. Lyon hefur orðið Evrópumeistari fimm ár í röð og sjö sinnum alls, oftast allra liða.

Rosengård, lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, dróst gegn Lanchkhuti frá Georgíu. Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur hennar í Vålerenga þurfa ekki að fara langt en þær mæta Brøndby frá Danmörku.

Englandsmeistarar Chelsea, sem norska landsliðskonan María Þórisdóttir leikur með, mætir Benfica. Cloe Lacasse, fyrrverandi leikmaður ÍBV, leikur með Benfica. Cloe er með íslenskan ríkisborgararétt en hefur ekki enn fengið leikheimild með íslenska landsliðinu.

Glasgow City, sem sló Val úr leik í síðustu umferð, mætir Spörtu Prag. Breiðablik mætti Spörtu Prag í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili og fór áfram, 4-2 samanlagt.

Wolfsburg, silfurlið Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili, mætir Spartak frá Serbíu.

Fyrri leikirnir í 32-liða úrslitunum fara fram 9. og 10. desember og þeir seinni 15. og 16. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×