Íslenski boltinn

Ekki viss um að Vals­liðið geti æft saman fyrir Meistara­deildar­leikinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pétur Pétursson á hliðarlínunni fyrr í sumar.
Pétur Pétursson á hliðarlínunni fyrr í sumar. vísir/vilhelm

Pétur Pétursson, þjálfari kvennaliðs Vals, er ekki viss um að liðið geti æft saman fyrir leikinn gegn HJK Helsinki í 1. umferð Meistaradeildar kvenna.

Dregið var í dag og gátu Valsstúlkur, ríkjandi Íslandsmeistarar, annað hvort mætt HJK Helsinki eða KÍ Klaksvík frá Færeyjum.

Valur fékk heimaleik gegn HJK og leikið verður annað hvort 3. eða 4. nóvember.

„Við gátum fengið Færeyjar eða Helsinki og þetta voru tvö lið sem við teljum henta okkur ágætlega. Þetta var góð niðurstaða,“

„Ég veit ekkert um þetta lið og hef ekkert séð það. Við þurfum að kynna okkur það. Þetta eru allt erfiðir leikir og út frá því að við höfum ekkert fengið að æfa.“

Margar úr Valsliðinu eru nú með íslenska kvennalandsliðinu þar sem liðið undirbýr sig fyrir leik gegn Svíum en Valsstúlkur fá ekki mikinn undirbúning saman fyrir Meistaradeildarleikinn.

„Landsliðið er úti og þær koma ekki heim fyrr en 28. eða 29. október og þá þurfa þær hugsanlega í sóttkví. Ég er ekki viss um að við getum æft neitt fyrir þennan leik.“

„Þetta er staðan og við tökum á þessu eins og þetta er. Við förum eftir þeim reglum sem settar eru og hvað við megum gera. Þetta er spennandi verkefni fyrir okkur.“

Pétur finnur til með leikmönnunum sem hafa verið að æfa einar að undanförnu en segir að æfingarnar horfi til betri vegar.

„Þetta er frekar leiðinlegt fyrir leikmennina. Þær hafa verið í sitt hvoru horninu að æfa einar, meira og minna, og sem betur fer getum við mætt núna saman og sparkað aðeins í boltann sem er mikill munur. Þetta er örugglega búið að vera erfitt fyrir leikmenn á Íslandi.“

Klippa: Sportpakkinn - Pétur um möguleika Vals

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×