Körfubolti

LeBron James stóðst pressuna og var frábær í sigri Lakers í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James fagnar með tilþrifum í leiknum í nótt.
LeBron James fagnar með tilþrifum í leiknum í nótt. AP/Mark J. Terrill)

LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers eru aðeins einum sigri frá NBA meistaratitlinum eftir 102-96 sigur á Miami Heat í nótt. Lakers er þar með komið í 3-1 í úrslitaeinvíginu.

LeBron James átti frábæran leik en hann var með 28 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Það var aftur á móti þriggja stiga karfa frá Anthony Davis 39,5 sekúndum fyrir leikslok sem gulltryggði sigurinn.

Anthony Davis skoraði 22 stig og tók 9 fráköst í leiknum en var einnig með 4 stoðsendingar og 4 varin skot. Lakers vann með 17 stigum þær mínútur sem hann spilaði. Kentavious Caldwell-Pope skoraði síðan 15 stig og Danny Green var með 10 stig.

Jimmy Butler var stigahæstur hjá Miami Heat liðinu með 22 stig en Tyler Herro var með 21 stig og Duncan Robinson skoraði 17 stig. Bam Adebayo snéri aftur í liðið eftir tveggja leikja fjarveru vegna meiðsla og skoraði 15 stig.

Eftir tapið í síðasta leik þá var pressa á LeBron James í nótt. „Ég fann fyrir pressunni. Mér fannst þetta vera einn af stærstu leikjunum á mínum ferli,“ sagði LeBron James og hann hrósaði Davis fyrir þristinn. „Stórt móment, ekki bara fyrir A.D. heldur einnig fyrir liðið okkar og allt félagið,“ sagði James.

„Eins og ég hef alltaf sagt þá eru þeir með virkilega gott lið og við þurfum nánast að spila fullkomlega til að vinna þá. Við gerðum það ekki í kvöld. Við horfum aftur á þennan leik og lærum af honum. Við megum ekki tapa fleiri leikjum,“ sagði Jimmy Butler.

Fimmti leikurinn í úrslitaeinvíginu fer fram á föstudaginn kemur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×