Erlent

Nöfn 411 Ís­lendinga í gagna­grunni kín­versks fyrir­tækis

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Zhenhua Data Information er með höfuðstöðvar í borginni Shenzen í Kína.
Zhenhua Data Information er með höfuðstöðvar í borginni Shenzen í Kína. Daniel Berehulak/Getty

Nöfnum 411 Íslendinga bregður fyrir í gagnagrunni kínversks fyrirtækis sem sérhæfir sig í að fylgjast með hegðun og atferli samfélagsmiðlanotenda. Gagnagrunnurinn hefur að geyma upplýsingar um 2,4 milljónir „þekktra einstaklinga,“ eins og það er orðað á vef Washington Post. Fjölmiðlar í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar eru með aðgang að gagnagrunninum. Fyrirtækið hafnar meintum tengslum við kínversk stjórnvöld.

Ekki liggur fyrir hvað fyrirtækið, Zhenhua Data Information, eða samstarfsaðilar þess geta eða ætla að gera við upplýsingarnar sem er að finna í gagnagrunninum. Í grein Guardian er sagt frá því að fyrirtækið kunni að hafa tengsl við herinn og leyniþjónustustofnanir í Kína.

Í skoðanagrein á vef Washington Post eftir Anne-Marie Brady, sem er sérfræðingur um málefni Kína við Canterbury-háskóla á Nýja-Sjálandi, kemur fram hversu marga Íslendinga er að finna í gögnum fyrirtækisins. Ekki liggur fyrir um hvað Íslendinga er að ræða. Þá er einnig greint frá því að 163 Færeyinga sé að finna í gagnagrunninum og 73 Grænlendinga. Því er þá velt upp hvort þetta geti stafað af áhuga kínverskra stjórnvalda á Norðurslóðum.

Í samtali við Guardian hafnar talsmaður fyrirtækisins meintum tengslum þess við stjórnvöld í Kína eða opinberar stofnanir þar í landi. Eins hafnaði hann því að fyrirtækið stæði í söfnun gagna um notendur samfélagsmiðla.

Gagnagrunnurinn flókinn og háþróaður

Upphaflega var greint frá gagnagrunninum síðastliðinn mánudag, þegar honum var lekið til bandarísks fræðimanns að nefni Christopher Balding. Hann hafði áður búið í Shenzhen í Kína, þar sem Zhenhua Data Information á höfuðstöðvar. Hann er hins vegar fluttur aftur til heimalands síns, þar sem hann óttaðist um öryggi sitt í Kína.

Balding deildi gagnagrunninum síðan með öryggisráðgjafafyrirtækinu Internet 2.0 til greiningar, áður en honum var lekið til nokkurra fréttamiðla á mánudag.

Sjálfur hefur Balding sagt magn þeirra gagna sem grunnurinn hafi að geyma vera „yfirþyrmandi.“ Gagnagrunnurinn sækti gögn í fjölmargar mismunandi heimildir, væri tæknilega flókinn og flokkaði gögn á háþróaðan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×