Erlent

„Annað­hvort þessir 28 liðir eða gífur­lega erfiður vetur“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu. AP/Yavuz Ozden, Dia

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þjóð sína í dag og sagði hana í einhverri erfiðustu stöðu sem þjóðin hefði upplifað. Helstu bandamenn Úkraínumanna reyndu að þvinga þá til að gera slæmt samkomulag við Rússa, sem hefðu reynt að sigra Úkraínu í ellefu ár.

Hann sagði þrýstinginn á Úkraínu mikinn og að þjóðin stæði nú mögulega frammi fyrir þeim valkosti að fórna virðingu sinni eða mögulega missa lykilbandamann.

„Annaðhvort þessir 28 liðir eða gífurlega erfiður vetur, sá erfiðasti, og frekari áhætta,“ er meðal þess sem Selenskí sagði í ávarpi sínu sem hann birti á Telegram.

Er það eftir að fregnir bárust af því að ráðamenn í Bandaríkjunum hefðu gefið til kynna að þeir myndu slíta á flæði upplýsinga og vopna, sem Úkraínumenn og/eða önnur ríki Evrópu hafa keypt af Bandaríkjamönnum, skrifi Selenski ekki fljótt undir friðaráætlun sem skrifuð var af bandarískum og rússneskum erindrekum.

Sjá einnig: Hóta að skera á flæði vopna og upplýsinga skrifi Selenskí ekki fljótt undir

Friðaráætlun þessari hefur verið lýst sem „óskalista“ Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og inniheldur þó nokkra liði sem Úkraínumenn hafa áður sagt að þeir geti ekki sætt sig við. Þá eru aðrir liðir í friðaráætluninni sem munu reynast ríkjum Evrópu erfiður biti að kyngja.

Í ávarpinu sagði Selenskí að hann myndi leggja til breytingar á friðaráætluninni en hann myndi alls ekki gefa Rússum tilefni til að halda því fram að það væru Úkraínumenn sem vildu ekki koma á friði.

Þá varaði forsetinn við því að næsta vika gæti orðið mjög erfið úkraínsku þjóðinni. Óvinurinn væri ekki sofandi og myndi reyna að nota tækifærið til að veikja Úkraínumenn og reyna að sundra þeim.

„Það verður að taka tillit til hagsmuna ríkisins,“ sagði Selenskí og bætti við að ráðamenn væru ekki að varpa frá sér háværum yfirlýsingum. Þess í stað væru þeir að vinna rólega með Bandaríkjamönnum og öðrum bandamönnum.

Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, ítrekaði stuðning ríkisstjórnar sinnar við Úkraínumenn í dag. Hann sagði að ráðamenn í Evrópu myndu ræða við ráðamenn í Bandaríkjunum og vísaði einnig til þess að krafa Rússa um að Úkraínumenn gæfu eftir umfangsmikið landsvæði sem Rússar hafa lengi reynt að hernema gengi ekki upp.

Þá sagði Selenskí í ávarpinu að úkraínska þjóðin hefði ekki gefist upp í febrúar 2022, þegar innrás Rússa hófst, og myndi ekki gera það núna.

„Ég veit að þjóðin er með mér.“

Blaðamaður Financial Times í Úkraínu hefur eftir nánum samstarfsmanni Selenskís að forsetinn hafi ætlað sér að vera hreinskilinn við úkraínsku þjóðina og í raun leita ráða hjá henni.


Tengdar fréttir

Vilja fá Selenskí til að samþykkja „óskalista“ Pútíns

Ráðamenn í Evrópu virðast verulega tortryggnir í garð nýrrar friðaráætlunar vegna Úkraínustríðsins sem ku hafa verið samin af sérstökum erindrekum frá Bandaríkjunum og Rússlandi. Áætlunin er sögð í takti við fyrri kröfur ráðamanna í Rússlandi í garð Úkraínu og að hún fæli í raun í sér uppgjöf Úkraínumanna.

Tugir látnir eftir árás á íbúðarhúsnæði

Að minnsta kosti 25 eru látnir, þar á meðal þrjú börn, eftir að rússnesk flugskeyti hæfðu íbúðarhúsnæði í vesturhluta Úkraínu. Rúmlega sjötíu særðust í árásinni.

Sagðir vinna að nýju friðarsamkomulagi án Úkraínu og Evrópu

Bandarískir og rússneskir erindrekar eru sagðir hafa unnið á laun að áætlun sem á að koma á friði í Úkraínu. Vinnan hefur þó verið alfarið unnin án aðkomu Úkraínumanna og ráðamanna í Evrópu. Áætlun þessi er sögð byggja á friðarætluninni sem kennd er við Trump og snýr að Gasaströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×