Körfubolti

Sá mikilvægasti í NBA-deildinni sendur í sturtu fyrir að skalla andstæðing

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Moritz Wagner heldur upp andlitið eftir að Giannis Antetokounmpo hafði skallað hann. Giannis Antetokounmpo sést fyrir aftan mjög ósáttur.
Moritz Wagner heldur upp andlitið eftir að Giannis Antetokounmpo hafði skallað hann. Giannis Antetokounmpo sést fyrir aftan mjög ósáttur. AP/Ashley Landis

Giannis Antetokounmpo, mikilvægasti leikmaður síðasta tímabils í NBA-deildinni og sá líklegasti til að fá þau verðlaun aftur í ár, varð sér til skammar í nótt og viðurkenndi það sjálfur eftir leik.

Gríski körfuboltamaðurinn Giannis Antetokounmpo var rekinn út úr húsi fyrir að skalla Mo Wagner hjá liði Washington Wizards. Atvikið gerðist í fyrri hálfleik og spilaði Giannis Antetokounmpo því aðeins í tíu mínútur. Grikkinn var samt með 12 stig og 9 fráköst og Milwaukee Bucks liðunu tókst að vinna leikinn án hans 126-113.

„Skelfileg framkoma,“ sagði Giannis Antetokounmpo eftir leik. „Ef ég gæti farið til baka og breytt þessu þá hefði ég aldrei gert þetta. Við erum allir mannlegir og við gerum öll mistök,“ sagði Giannis Antetokounmpo.

„Mér finnst ég hafa staðið mig vel í vetur og á mínum ferli að halda ró minni og einbeita mér að leiknum. Ég er samt bara mannlegur og verð stundum á í messunni. Ég verð bara að læra af þessu, halda áfram að spila góðan körfubolta og horfa til framtíðar,“ sagði Antetokounmpo.

Atvikið má sjá hér fyrir neðan.

Mo Wagner hafði fiskað ruðning á Giannis Antetokounmpo hinum megin á vellinum og þeim lenti saman. Þeir héldu áfram að karpa upp allan völlinn sem endaði með að Giannis Antetokounmpo gekk að Wagner og skallaði hann.

„Ég hef ekkert á móti Wagner og þetta var ekki bara hann. Þetta var, í mínum huga, samansafn af öllum þessum leikjum þar sem menn hafa verið að berja á mér og ég missti bara stjórn á mér í eina sekúndu,“ sagði Giannis Antetokounmpo.

„Þetta er ekkert. Giannis hefur þurft að eiga við þetta í langan tíma. Hann er mikilvægasti leikmaður deildarinnar. Menn munu láta reyna á hann. Hann er vanalega stórkostlegur en gerði mistök í dag. Ég held samt, að einhverju leiti, að þetta geti verið eitt það besta sem gat gerst. Hann lærir af þessu. Við munum síðan allir muna eftir því að við verðum að halda ró okkar, sagði Mike Budenholzer, þjálfari Milwaukee Bucks liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×