Skoðun

Að sigra heiminn: Af gengi fjöl­skyldna til að blómstra á tímum Co­vid-19

Linda Björk Ólafsdóttir og Thelma Hafþórsdóttir Byrd skrifa

Covid-19 veiran hefur á stuttum tíma gjörbreytt lífinu eins og við þekktum það og óvissan er mikil. Þær aðgerðir sem ætlað er að hefta útbreiðslu veirunnar munu óneitanlega hafa áhrif á daglegt líf flestra í óráðinn tíma.

Krefjandi tímar

Margir sinna vinnunni nú heiman frá, fólk hittist sjaldnar en áður, börnin eru að miklu leyti heima vegna skerts skólastarfs og íþróttastarf í landinu liggur niðri. Fjöldi fólks hefur misst vinnu sína eða tekið á sig skert starfshlutfall og fjárhagsáhyggjur bætast við áhyggjur af heilsu og líðan okkar sem og annarra.

Á sama tíma eru ýmiss konar kröfur gerðar til fjölskyldna og einstaklinga. Sinna þarf heimanámi barna, ásamt því að bjóða börnum upp á afþreyingu og skapa þeim rými til að sinna tómstundum sínum og æfingum. Við erum hvött til útiveru og hreyfingar, að borða hollt og huga að andlegri heilsu okkar. Við heyrum því jafnvel fleygt fram að njóta tímans sem við nú höfum heima.

Á samfélagsmiðlum sjáum við daglegar auglýsingar og hugmyndir um afþreyingu sem hægt er að bjóða upp á heima við. Álag skapast við að finna tíma, orku og fjármuni til að stytta fjölskyldunni stundir. Þá erum við beðin um að styðja við íslenska verslun og nýta heimsendingu á margvíslegum vörum, mis nauðsynlegum. Margir upplifa einnig kvíða yfir ástandinu í þjóðfélaginu, eru að glíma við veikindi eða reyna að styðja við fjölskyldumeðlimi sem eru í sóttkví eða einangrun. Einnig er hætta á að þeir sem búa einir einangrist félagslega og eldra fólk eða fólk í áhættuhópum finni fyrir einmanaleika ofan á allt annað. Enn aðrir sinna framlínustörfum og hafa ekki kost á að vinna heiman frá sem getur einnig skapað togstreitu. Svo má ekki gleyma að það eiga ekki allir griðastað á eigin heimili en reynslan bæði hér á landi og erlendis sýnir því miður að heimilisofbeldi og vanræksla barna eykst á tímum sem þessum.

Auk þess er fjöldi fólks háð nánum samskiptum við aðra til að geta sinnt sínu daglega lífi, t.a.m. fólk sem nýtur notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), og í núverandi landslagi eru margir óvissuþættir til staðar og óljóst hvernig haga eigi hlutum ef notandi eða stuðningsaðili veikist.

Það er því að mörgu að huga og ljóst að þetta er ekki einföld staða sem við búum við. Eftir sem áður þurfum við að finna leiðir til að takast á við þetta tímabundna ástand.

Hinn tíðræddi meðalvegur

Innan iðjuþjálfunarfræða er gjarnan talað um jafnvægi í daglegu lífi eða hvernig við viðhöldum jafnvægi milli þess sem við a) þurfum að gera, eins og að sinna vinnu, heimilisstörfum og öðrum skylduverkum og b) þess sem við viljum gera og veitir okkur ánægju, eins og áhugamál okkar, frístundir og hvíldartími. Gott jafnvægi næst þegar við ráðum vel við hlutverkin okkar og náum að sinna því sem við þurfum og viljum geta gert. Slíkt jafnvægi stuðlar að heilsu okkar og vellíðan. Á þessum óvissutímum er líklegt að þetta jafnvægi raskist og við þurfum að endurskipuleggja okkur og forgangsraða upp á nýtt.

Streita hefur áhrif á jafnvægið hjá mörgum en streita getur myndast þegar kröfurnar sem við eða aðrir gera til okkar eru meiri en við ráðum við. Það er því mikilvægt að gera ekki of miklar kröfur til okkar né annarra, hvort sem að við erum stjórnendur, starfsmenn, foreldrar, námsmenn eða gegnum öðrum hlutverkum. Það er t.a.m. óraunhæft fyrir flesta að ætla sér að vinna heima og skila sömu afköstum og áður á meðan börnin eru heima líka.

Möguleg bjargráð

Þótt nauðsynlegt sé að minnka kröfurnar til okkar og gera viðeigandi breytingar á okkar daglega lífi þá er mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni og halda í daglega rútínu, þ.e. að vakna á hefðbundnum tíma, vera í samskiptum við okkar nánustu, gæta þess að fá góðan nætursvefn og sinna grunnþörfum okkar og annarra á heimilinu, s.s. fara í sturtu, klæða sig og borða á réttum tímum.

Fræðimenn innan iðjuþjálfunar hafa m.a. skoðað hvernig best er fyrir fólk að fóta sig að nýju eftir að hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum eins og slysi eða veikindum, atvinnumissi, náttúruhamförum eða ofbeldi. Í þessu samhengi hefur kanadíski iðjuþjálfinn Dr. Rachel Thibeault sett niður fimm atriði sem reynast vel til að byggja upp seiglu og ná aftur stjórn á lífinu. Þessi atriði eru að: 1) viðhalda daglegri rútínu og framkvæma athafnir sem gera ekki of miklar kröfur til okkar, 2) stunda hugleiðslu, efla núvitund og verja tíma í náttúrunni, 3) taka þátt í skapandi iðju eða sinna tómstundum, 4) vera í sambandi við fjölskyldu okkar og vini og 5) gefa af okkur og vera til staðar fyrir aðra.

Þá reynist sumum gagnlegt að útbúa stundaskrá eða gera verkefnalista yfir þau atriði sem komast þarf yfir í hverri viku. Ef verkefnin eru mörg getur verið nauðsynlegt að forgangsraða þeim og ef þau eru viðamikil er hægt að skipta þeim niður í smærri viðráðanlegri einingar. Í heimavinnu reynast stuttar vinnulotur mörgum vel og ákjósanlegt er að standa reglulega upp og hreyfa sig aðeins áður en haldið er áfram, jafnvel fá sér göngutúr. Auk þess getur verið gott að sinna heimilisstörfum eftir að vinnutíma lýkur, þótt unnið sé heiman frá – og leggja áherslu á að allir hjálpist að. En slíkt getur reynst nauðsynlegt ef fjölskyldumeðlimur veikist því þá er enn meiri þörf á að draga úr kröfum og deila verkefnum.

Fyrir barnafjölskyldur er þörf á að skipuleggja tíma fyrir heimanám barna og stuðning fyrir þau en ekki má gleyma að hafa líka gaman. Gott er að spyrja sig „hvað getum við gert“ frekar en að beina sjónum að því sem við förum á mis við í augnablikinu. Fjölskyldan getur t.d. gert lista yfir skemmtilegar hugmyndir sem hægt er að nýta til að gera sér dagamun. Þótt gott geti verið að brjóta upp daginn fyrir börnin með ýmiss konar afþreyingu, föndri eða öðrum verkefnum þá þarf líka að muna að frjáls leikur er alltaf besti leikurinn. Börnunum má leiðast (þótt það sé stundum leiðinlegt!) því þannig skapast tækifæri fyrir þau til að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug til að framkvæma eða hafa ofan af fyrir sér með. Munum að hafa ánægju af því sem við gerum saman, samverustund ætti ekki að auka á streitu fjölskyldunnar þótt það vissulega gerist stundum. Ef dagurinn gengur ekki upp eins og vonast var til, þá er það allt í lagi því aðstæður eru víða óvenjulegar þessa dagana.

Horft til hafnar

Við erum að upplifa einkennilega tíma sem engum hefði órað fyrir að við myndum nokkurn tímann lifa. Í raun var nútímafjölskyldan með of mörg hlutverk áður en veiran kom og kúventi hversdagsleikanum okkar. Munum að hrósa börnunum okkar og öðrum fjölskyldumeðlimum þegar það er verðskuldað, líka fyrir litlu hlutina. Flestir eru að gera sitt besta. Við skulum heldur ekki gleyma að klappa okkur sjálfum á öxlina fyrir hversu mörgum boltum við erum að reyna að halda á lofti þessa dagana. Kannski mættum við líka endurskilgreina orðið dygð. Er það dygð að komast yfir sem flest eða er það frekar dygð að geta sleppt tökunum? Og þannig hafa meiri frítíma, fleiri gæðastundir með fjölskyldu eða einfaldlega eiga stund í einrúmi? Þú þarft ekki að vera besta útgáfan af sjálfri/sjálfum þér, a.m.k. ekki núna.

Höfum í huga að þetta er tímabundið ástand. Sumum reynist nauðsynlegt að gera ákveðnar ráðstafanir þegar kemur að vinnu, fjármálum, barnagæslu o.fl. Almannavarnir endurmeta stöðuna þó reglulega og því getur verið gagnlegt að hugsa ekki of langt fram í tímann. Jafnvel taka bara einn dag í einu. Því að:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

(Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði).

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið.

Að sigra heiminn eftir Stein Steinarr.

Höfundar eru mæður og iðjuþjálfar.




Skoðun

Sjá meira


×