Enski boltinn

Pochettino: Ekki búast við of miklu af Ndombele

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tanguy Ndombele
Tanguy Ndombele vísir/getty
Franski miðjumaðurinn Tanguy Ndombele varð í sumar dýrasti leikmaður í sögu enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham þegar hann gekk í raðir félagsins frá Lyon fyrir 65 milljónir punda.

Ndombele er 22 ára gamall og hefur leikið 6 A-landsleiki fyrir Frakka en samkvæmt Mauricio Pochettino, stjóra Tottenham, mun það taka kappann góðan tíma að aðlagast lífinu í Lundúnum.

„Þetta er erfitt fyrir hann. Við getum ekki búist við of miklu frá honum. Við verðum að sætta okkur við að hann þarf tíma til að aðlagast nýrri menningu, nýju landi. Þetta er allt nýtt fyrir hann,“ segir Pochettino.

Samkvæmt argentíska stjóranum verður enn erfiðara en ella fyrir Ndombele að aðlagast þar sem hann er eini nýi leikmaðurinn í leikmannahóp Tottenham.

„Hann er eini nýi leikmaðurinn og það gerir hlutina enn flóknari. Þegar nokkrir nýir leikmenn koma á sama tíma er auðveldara fyrir þá að aðlagast saman.“

„Við þurfum að gefa honum tíma en ég er ánægður með hvernig hann hefur komið inn. Hann er opinn fyrir því að bæta sig og að læra en það mun líða einhver tími áður en við sjáum það besta frá honum,“ segir Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×