Fyrirtækin hafa átt í samstarfi í þrettán ár á fjórum stöðum. Þremur verslunum Eymundsson í miðbæ Reykjavíkur og einu á Akureyri. Ekki náðist samkomulag um frekara samstarf.
Til skoðunar er að opna nýtt útibú á Akureyri en ekkert liggur þó fyrir í þeim efnum.
Sáu ekki framtíðina sömu augum
Guðmundur segir samstarf fyrirtækjanna undanfarin þrettán ára hafa verið gott. Auk reksturs kaffihúsanna hefur Penninn séð um sölu á kaffi á skrifstofumarkaði.„Það hefur hangið á einum og sama samningnum en sá samningur rann út í vor,“ segir Guðmundur.
Samningaviðræður hafi staðið yfir fyrirtækjanna á milli undanfarin ár.
„Það sem kom út úr því var hreinlega að menn sáu ekki framtíðina sömu augum.“

Vildu stokka upp
Guðmundur segir staðina fjóra hafa gengið misvel í rekstri. Aðilar á veitingamarkaði hafi fundið fyrir ákveðnum erfiðleikum og Te & kaffi sé engin undantekning á því.„Við vildum stokka upp og semja á annan hátt en forsvarsmenn Pennans voru sáttir við. Menn sáu ekki grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi.“
Þótt samningar hafi runnið út í vor hafi verið ákveðið að halda áfram í sumar á meðan spáð yrði og spekúlerað. Þetta er svo niðurstaðan. Reiknar Guðmundur með að stöðunum verði lokað í áföngum á næstu vikum.
„Við verðum farnir út í kringum mánaðarmótin. Sennilega fyrstu vikuna í september.“
Úr þrettán í níu
Te & kaffi rekur þessa stundina þrettán kaffihús svo eftir breytinguna verða níu eftir.„Það er alveg slatti að halda utan um,“ segir Guðmundur. Engar breytingar verða á rekstri annarra útibúa Te&kaffi og segir Guðmundur fyrirtækið halda uppteknum hætti. Sérstaklega verði skoðað að opna nýtt útibú fyrir norðan þótt það sé enn á byrjunarstigi.
Samkvæmt heimildum Vísis hafa forsvarsmenn Pennans til skoðunar að opna eigin kaffisölu í verslunum Eymundsson.
„Með fullri virðingu fyrir því sem Penninn kemur til með að gera þá held ég að Akureyringar eigi eftir að sakna Te & kaffi,“ segir Guðmundur. Kaffihúsið hefur notið mikilla vinsælda en það er staðsett á besta stað í miðbænum.
Ekkert plan sé á borðinu en þau séu með augun opin og gá hvort opnist spennandi möguleiki í höfuðborg norðursins.
Hljóti að vera færri Íslendingar í miðbænum
Guðmundur segir Te & kaffi fyrirtæki í sókn „þó svo að miðbærinn hafi undanfarin ár verið ströggl“.Te & Kaffi er með útibú í Aðalstræti, Lækjargötu og Laugavegi til viðbótar við þrjú útibú í Eymundsson á Skólavörðustíg og Laugavegi sem brátt heyra sögunni til. Guðmundur veltir nokkrum hlutum fyrir sér hvers vegna reksturinn í miðbænum gangi verr en áður.
„Kauphegðun túristanna er öðruvísi og svo finnum við líka fyrir því að þeim hefur fækkað. Svo hlýtur að vera að komum Íslendinga í miðborgina sé eitthvað að fækka,“ segir Guðmundur.
Fyrirtækið hafi því horft til þess að opna frekar útibú á jaðrinum eins og í Borgartúni og Smáralind auk Hlemms. Þá gangi staðirnir í Kringlunni og Smáralind mjög vel og hafi stækkað verulega frá því sem áður var.