Skoðun

27

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Ungir karlmenn eru leiðinlegasta dýrategundin sem gengur laus á jörðinni og verstir eru þeir á árunum milli tvítugs og þrítugs þegar þeir eru beinlínis meiri og verri óværa en lúsmý og gjammandi púðluhundar til samans.

Samkvæmt lögmálinu á þetta að byrja að rjátlast af okkur um þrítugt en sjálfur er ég svo seintækur að þá var ég enn að harma að hafa ekki tekist að drepast 27 ára. Það er nefnilega svo töff. Svona eins og Brian Jones, Jim Morrison, Janis Joplin, Jimi Hendrix, Kurt Cobain og síðar blessunin hún Amy Winehouse.

Huggun mín gegn þessum harmi var að ég dó óeiginlega 27 ára þegar þunglyndið sem hafði lengi vomað yfir mér helltist yfir mig og skrúfaði í framhaldinu alkóhólismann minn upp að hættumörkum þannig að eina vitið var að reyna að elta 27 ára klúbbinn og „skemmta“ mér við að hámarka óhamingjuna.

Síðan eru liðin mörg, mörg, löng og dapurleg ár sem gengu helst út á að reyna að drepast ekki alltof mörgum árum eldri en Morrison. Tók mig heil átján ár af brúarbrennum og bömmerum að fatta að það væru ekki fleiri nætur eftir til þess að reyna að kveikja í.

Ég þurfti að vísu að fá krabbamein í karlmennskuna til þess að viðurkenna fyrir sjálfum mér að það er nákvæmlega ekkert kúl að deyja 27 ára þegar maður er enn ungur og vitlaus. Kemur svo vel á vondan klisjuhatarann sem ég er að þurfa loksins að viðurkenna fyrir sjálfum mér að líf mitt var sjálfdauð klisja.

Samkvæmt appinu sem heldur utan um nýja lífið mitt hef ég nú þegar sparað rúman 150 þúsund kall á að hætta að reykja og drekka þannig að klisjan um að það er aldrei of seint að byrja upp á nýtt hentar mér greinilega betur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×