Skoðun

Heilsufarshrun

Guðrún Magnúsdóttir skrifar
Lífsstílstengdir sjúkdómar leiða til 86 prósenta allra dauðsfalla á Vesturlöndum. Rekja má um 70 til 80 prósent af öllum heilbrigðiskostnaði til þeirra. Rúmlega 60 prósent Íslendinga eru yfir kjörþyngd og fimmtungur þjóðarinnar glímir við offitu. 23 þúsund landsmanna eru með sykursýki og um 80.000 með hækkaðan blóðsykur. Meginorsökin er neysla orkuríkrar en næringarsnauðrar fæðu ásamt aukinni kyrrsetu. Tölurnar sýna að rúmlega helmingur þjóðarinnar er á heilsufarslegum yfirdrætti. Fáir virðast tilbúnir til að horfast í augu við skuldadaga. Undanfarið hafa háværar raddir hagsmunaaðila í matvæla- og landbúnaðariðnaði mætt umræðu um sykurskatt harkalega. Háværustu mótrökin eru að inngripið teljist til forræðishyggju og frelsisskerðingar. Aðrir telja að niðurgreiðsla á hlaupa­skóm gæti skilað sambærilegum árangri fyrir lýðheilsu.

Hagsmunaaðilar hafa bent á að sykurskatturinn 2013 hafi ekki skilað árangri, en umrædd tilraun stóð ekki yfir nema í eitt og hálft ár sem er of skammur tími til að meta árangur. Þá var álagningin ekki nægilega há og verðbreytingin ekki áþreifanleg fyrir neytendur. Rannsóknir sýna að verðbreyting sem nemur 20 prósenta hækkun á matvæli geti dregið úr neyslu um sömu prósentu. Reynsla þeirra ríkja sem skattlagt hafa sykruð matvæli er að dregið hefur úr neyslunni. Skaðinn er skeður. Núverandi tillaga um sykurskatt er einfaldlega hluti af neyðarúrræðum stjórnvalda til að bregðast við heilsufarslegu gjaldþroti Íslendinga. Vandinn er stærri en kílóverðið á nammibarnum. Raunveruleikinn er sá að stór hluti þjóðarinnar ræður ekki við núverandi aðgengi að sykruðum og óæskilegum matvælum.

Landsmenn hafa hingað til séð sjálfir um að skerða frelsi sitt með öfgafullri neyslu á óæskilegum matvælum með tilheyrandi höggi á andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði. Sykurskatturinn einn og sér leysir ekki vandann en er einn hlekkur í hagkvæmri og skilvirkri pólitískri inngripakeðju sem horfir til langs tíma fremur en meðferð og meðhöndlun lífsstílstengdra sjúkdóma. Aðrir mikilvægir hlekkir í keðjunni eru betri merkingar á matvælum, fjármagn til fræðslu- og forvarnarstarfa ásamt bættu aðgengi að hollari matvælum.




Skoðun

Sjá meira


×