Enski boltinn

Leikmenn Liverpool áttu sumir erfitt með sig í klefanum eftir leikinn | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold átti mikinn þátt í sigrinum í gærkvöldi.
Trent Alexander-Arnold átti mikinn þátt í sigrinum í gærkvöldi. Mynd/Twitter/@LFC
Það voru miklar tilfinningar í gangi meðal leikmanna Liverpool liðsins eftir ótrúlegan endurkomusigur á stórliði Barcelona á Anfield í gærkvöldi.

Það spáðu fáir því að Liverpool kæmist áfram eftir 3-0 tap á móti Barcelona í fyrri leiknum á Spáni. Leikmenn Liverpool þurftu því að þjappa sér saman og halda trúnni á hvern annan og liðið.

Ekki hjálpaði til að liðið missti bæði Mohamed Salah og Roberto Firmino í meiðsli fyrir þennan mikilvæga leik.

Hvernig átti lið án tveggja bestu sóknarmanna sinn að skora fjögur mörk hjá Barcelona og það sem meira er að gera það án þess að mega fá á sig mark?

Það ótrúlega gerðist og Liverpool tókst að framkalla kraftaverk á stórbrotnu Evrópukvöldi á Anfield.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr búningsklefa Liverpool eftir leikinn en það birtist á samfélagsmiðlum Liverpool sem fengu örugglega mikla umferð eftir leikinn í gær.





Þar mátti sjá að margir leikmenn Liverpool áttu erfitt með sig í klefanum eftir leikinn. Þar á meðal var hinn tvítugi Trent Alexander-Arnold sem átti tvær stoðsendingar í leiknum.

Í myndbandinu hér fyrir ofan má einnig sjá að enginn brosti breiðara en Mohamed Salah sem missti af leiknum vegna höfuðhöggs um síðustu helgi. Egyptinn lék við hvern sinn fingur í Liverpool klefanum í gær.

Það mátti sjá Mohamed Salah meðal annars grínast við James Milner sem hafði tárast í leikslok. Salah spurði Milner hvort að hann hafi nokkuð verið búinn að plana sumarfríið sitt.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram í Madrid 1. júní en ef Liverpool hefði tapað í gærkvöldi þá hefði tímabilið endað sunnudaginn 12. maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×