Körfubolti

Toppliðið missir einn sinn besta leikmann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unnur Tara Jónsdóttir hefur átt mjög flott tímabil. Hér reynir hún að stoppa Stjörnukonuna Ragnheiði Benónísdóttur.
Unnur Tara Jónsdóttir hefur átt mjög flott tímabil. Hér reynir hún að stoppa Stjörnukonuna Ragnheiði Benónísdóttur. Vísir/Daníel
Nýliðar KR í Domino´s deild kvenna í körfubolta hafa orðið fyrir miklu áfalli en landsliðskonan Unnur Tara Jónsdóttir spilar ekki meira með Vesturbæjarliðinu á þessari leiktíð.

Karfan.is segir frá því að um 2/3 hluta fremra krossbands hennar hafi trosnað í leik á móti Breiðabliki á dögunum. Þessi meiðsli þýða að hún verður ekkert meira með í vetur en þjálfarinn Benedikt Guðmundsson staðfesti þetta við síðuna.

Unnur Tara Jónsdóttir er að spila aftur í efstu deild eftir langa fjarveru en hún hjálpaði KR að komast upp í efstu deild í fyrra í vetur.

Á þessu tímabili hefur Unnur Tara verið með 8,7 stig og 6,4 fráköst að meðaltali en auk þess að vera besti íslenski leikmaður KR-liðsins þá hefur hún verið einn allra besti varnarmaður Domino´s deildarinnar.

Unnur Tara skoraði 19 stig á 22 mínútum í þessum afdrifaríka leik á móti Blikum en hann fór fram 6. febrúar síðastliðinn.

KR lék án Unnar á móti Skallagrími í leiknum á eftir og vann þá 80-64 sigur. Liðið hélt því toppsæti sínu í deildinni en KR-konur eru í harðri baráttu við Keflavík og Val um deildarmeistaratitilinn.

Þetta er líka missir fyrir landsliðið en Unnur Tara var búin að vinna sér sæti í landsliðinu í vetur eftir átta ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×