Umfjöllun, viðtöl og markið: Þór/KA - Wolfsburg 0-1 | Besti leikmaður Evrópu afgreiddi Þór/KA

Jón Ágúst Eyjólfsson skrifar
 Íslandsmeistarar Þór/Ka tóku á móti Þýskalandsmeisturunum í Wolfsburg í 32 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna á Þórsvelli í dag.

Eins og við var að búast var róðurinn þungur fyrir heimakonur frá upphafi til enda og fór svo að gestirnir unnu leikinn 0 – 1.

 

Það lá snemma ljóst fyrir í hvað stemmdi á Akureyri. Gestirnir hófu leikinn af miklum krafti og lágu á Þór/KA.

Snemma leiks mátti litlu muna, í tvígang, að sóknarmenn Wolfsburg slyppu í gegn en vörn heimakvenna og markmaður voru vel á verði og komu í veg fyrir að meiri hætta skapaðist.

 

Í raun má segja að þrátt fyrir að Wolfsburg hafi haldið boltanum svo til allan leikinn þá sköpuðu þær sér nær engin færi úr opnum leik. Hættulegustu færi gestanna komu eftir hornspyrnur.

Á 31. Mínútu fengu þær eina slíka og Pernille Harder, sem á dögunum var valin knattspyrnukona Evrópu, kemur boltanum framhjá Stephanie Bukovec í marki Þór/Ka.

 

Eftir markið héldu gestirnir áfram að þjarma að heimakonum en þökk sé flottum varnarleik og enn betri markvörslu var staðan enn 0 – 1 þegar liðin gengu til búningsherberjga að fyrri hálfleik loknum.

 

Í síðari hálfleik var það sama upp á tengingnum. Leikmenn Wolfsburg héldu boltanum, fengu horn og við það skapaðist mikil hætta á teig heimakvenna. Áfram hélt Bukovec að verja eins og berserkur.

 

Leikmenn Þór/Ka náðu einstaka sinnum að taka boltann og halda honum innan sinna raða og hefðu hæglega getað laumað inn eins og einu marki hér í dag.

Bestu tilraun þeirra átti Sandra Mayor þegar hún hamraði boltanum í átt að marki vel fyrir utan teig. Boltinn sveif yfir markmann gestanna en því miður fyrir Þór/Ka hafnaði boltinn í þverslánni.

 

Þrátt fyrir mikla orrahríð síðustu mínútur leiksins tókst Wolfsburg ekki að bæta við marki og fór því svo að Wolfsburg höfðu sigur 0 – 1 hér á Akureyri.

Íslandsmeistararnir geta þó gengið stoltar frá borði eftir þessa frammistöðu gegn einu besta félagsliði heims í kvennaboltanum.

 

Donni: Þetta er náttúrulega geggjað lið

Halldór Jón Sigurðsson, eða Donni, var afar stoltur af sínu liði í leikslok.

,,Við héldum skipulagi í 90 mínútur á móti besta liði heims, fengum bara á okkur eitt mark og gáfum okkur góðan séns fyrir útileikinn, sem er bara frábært,“ sagði Donni og bætti því við að hans konur hefðu hæglega getað sett þrjú mörk í leiknum.

,,Við vorum að spila við alveg hrikalega sterkt lið, það sást hvað þær voru góðar en mér fannst mitt lið líka mjög gott í að loka svæðum og henda sér fyrir það sem þurfti að henda sér fyrir.“

Leikmenn Þór/Ka héldu boltanum ekki vel í leiknum og sagði Donni það vissulega rétt að hans stúlkur hefðu getað gert betur í því að halda boltanum.

 

Þegar liðin gengu til búningsherbergja leiddu þær þýsku með einu marki og hálfleiksræða Donna var ekki flókin.

,,Bara halda áfram. Við vorum ekkert ósáttar við það þó það væri eitt núll. Við ætluðum alltaf að skora eitt mark og þá hefði verið 1 – 1 sem hefði verið vænleg staða fyrir okkur,“ sagði Donni og bætti við að ,,það var pínu svekkjandi hvernig markið kom. Ég hefði frekar viljað fá hann hérna sláinn inn í staðinn fyrir að fá mark eftir fast leikatriði þar sem þær hirða seinni boltann.“

 

,,Þetta er náttúrulega geggjað lið,“ sagði Donni og bætir því við að ,,eins marks tap gegn Wolfsburg, fyrir íslenskt lið er stórkostlegur sigur í rauninni og við gefum okkur möguleika, vitum að þeir eru ekki miklir, fyrir útileikinn sem er stórkostlegt, að geta farið til Þýskalands og eiga bara möguleika með eitt fast leikatriði sem dettur okkur í hag.“

 

Um leið og Donni ítrekaði hversu stoltur hann væri af sínum stelpum hrósaði hann áhorfendum á Þórsvelli sem töldu 1529 manns.

,,Ég er mjög ánægður með fólkið sem mætti hér í dag. Þvílíkur stuðningur sem skilaði mjög miklu til okkar allra sem stöndum að þessu,“ sagði Donni og þakkaði að lokum öllum þeim sem mættu og studdu stelpurnar í þessum gríðarlega mikilvæga leik.

 

Stephan Lerch: Úrslitin vonbrigði

Þjálfari Wolfsburg, Stephen Lerch, sagði sínar konur hafa spilað mjög vel þrátt fyrir að hafa ekki náð að skora nema eitt mark á Þórsvellinum í dag. ,,Við áttum mörg færi hér í dag og það er sorglegt að við skildum ekki ná að skora nema eitt mark og úrslitin nokkur vonbrigði fyrir okkur,“ sagði Lerch.

 

Hann hrósaði andstæðingum sínum fyrir harðan og góðan varnarleik. ,,Þær sýndu mikið hugrekki í sínum varnarleik og spiluðu góðan leik hér í dag, hefðu meira að segja getað skorað hér undir lokin.“ Hann bætti því svo við að það væri ,,frábært að fá tækifæri til að spila hér á Íslandi og andrúmsloftið á vellinum var til fyrirmyndar“.

 

Leikmenn Wolfsburg fengu ógrynni af hálffærum og nokkur dauðafæri og sagði Lerch það hafa verið erfitt að horfa á sínar konur á tímabili. ,,Þetta var góður leikur og mikið af færum, stelpurnar mínar stóðu sig vel og það er jákvætt að okkur tókst að skapa okkur öll þessi færi,“ sagði Lerch og bætti því við að ,,við verðum að nýta færin okkar betur og skora annað eða þriðja markið“.

 

Sandra María: Þurfum að vera aðeins rólegri á boltanum

Sandra María Jessen, fyrirliði Þór/Ka, var ánægð með leik sinna kvenna í 32 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í dag. ,,Við getum gengið nokkuð sáttar frá þessu verkefni, hver og einn leikmaður lagði sig allan fram og svekkjandi að ná ekki inn marki í lokin.“

 

Sandra segir að liðið hafi spilað þéttan og agaðan varnarleik en hefðu mögulega getað haldið boltanum örlítið betur. ,,Við vorum samt sem áður að nýta okkur svæðin sem sköpuðust fyrir aftan vörnina þeirra og vorum óheppnar að skora ekki í lokin,“ sagði Sandra.

 

Það lá ansi mikið á liði Þór/Ka og við því búist að einbeitingin dofni þegar líða fer á slíkan leik. Fyrirliðin gaf lítið fyrir það og hugarfarið hjá sínu liði hafi verið það sama á fyrstu og nítugustu mínu.

,,Við vorum kannski ekki mikið með boltann í leiknum en um að gera að nýta það þegar við erum með hann.“ Þór/Ka átti vissulega í vandræðum með að halda boltanum og bætti Sandra við að:

,,við þurfum kannski að bæta það fyrir seinni leikinn úti í Þýskalandi að vera aðeins rólegri á honum en samt sem áður halda áfram að nýta svæðin fyrir aftan vörnina og hraðann sem við höfum þarna frammi.“

 

Sandra býst við því að uppleggið í seinni leiknum verði svipað og í dag. Lagt verði upp með öguðum varnarleik. Hún bætti því við að auðvitað væri eitthvað sem Þór/Ka getur gert betur í seinni leiknum og að þær munu horfa á leikinn og gera allt sem þær geta til að laga það sem ekki gekk upp. Að lokum sagði Sandra að markmiðið væri að ,,gefa þeim annan hörkuleik eins og við gerðum hér í dag“.

 

Sara Björk: Ég er pínulítið svekkt

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Wolfsburg, var að eigin sögn pínulítið svekkt með úrslitin á Þórsvellinum í dag. ,,Við hefðum átt að setja fleiri mörk á þær og koma okkur í aðeins betri stöðu en við förum með eitt núll og gerum vonandi enn betur heima,“ sagði Sara.

 

Í upphafi leiks var jafnvel útlit fyrir markasúpu af hálfu gestanna. ,,Maður verður að byrja á því að skora eitt og reyna að halda áfram. Við vissum að Þór/Ka myndi liggja djúpt og það er alltaf erfitt að mæta svoleiðis liði. Nokkur lið í Bundesligunni spila svona djúpt og það þarf að sýna mikla þolinmæði gegn svona liðum,“ sagði Sara og bætti því við að ,,þær náðu að loka þeim svæðum sem við vildum komast í og gerðu það mjög vel“.

Sara sat ansi aftarlega á vellinum í dag og tók ekki mikin þátt í sóknarleik gestanna. Hún sagði að það kæmi fyrir að hún spilaði aftar en hún væri vön. ,,Það var ansi þröngt inn á miðjunni og þess vegna reyndum að spila þar sem að ég datt aðeins niður og reyndum að fá boltann út á kantana og opna þær þannig“.

 

Sara sagði það frábæra tilfinningu að fá að spila á móti íslensku liði. ,,Ég hef alltaf vonast til þess að fá íslenskt lið í meistaradeildinni. Ég var alltaf að vonast eftir því þegar ég var í Rosengaard og um leið og ég fór fengu þær Breiðablik þannig að ég var mjög sátt með dráttinn,“ sagði Sara að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira