Skoðun

Opið bréf til Þórdísar Lóu

Egill Þór Jónsson skrifar
Kæra Þórdís Lóa. 

Vegna fréttar og viðtals við þig í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag vil ég koma eftirfarandi á framfæri til þín.

Stjórnarandstaðan sendi frá sér yfirlýsingu í morgun, eins og þér er kunnugt um, vegna neyðarástands í húsnæðismálum heimilislausra. Athygli mína vakti að þú sem formaður borgarráðs, lést að því liggja að fyrirhugaður fundur í velferðarráði með hagsmunasamtökum heimilislausra, nánar tiltekið Kærleikssamtökunum, hafi verið að frumkvæði meirihlutans í borgarstjórn. Rétt er að upplýsa þig um að þetta er rangt.

Hið rétta er að beiðni um fundinn var að frumkvæði Kærleikssamtakanna sjálfra, þar sem átti að fara heildstætt yfir málin en stjórnarandstaðan hafði frumkvæði að því að setja málið á dagskrá velferðarráðs f.h. samtakanna en ekki var unnt að verða við beiðninni fyrr en eftir sumarleyfi borgarstjórnar. 

Það er með ólíkindum hvernig meirihlutaflokkarnir fara undan í flæmingi í þessu máli og neita enn að horfast í augu við aðgerðarleysi sitt í málaflokknum. Það er ekki nóg að setja falleg orð í málefnasamning en aðhafast síðan ekkert í framhaldinu, heldur fara bara í sumarfrí og ýta vandanum á undan sér. 

Ég trúi því að ég tali fyrir okkur öll, fulltrúa stjórnarandstöðunnar í velferðarráði, þegar ég segi að við fögnum því að meirihlutinn hafi nú loksins orðið við ósk stjórnarandstöðuflokkanna um neyðarfund í borgarráði, endi veitir ekki af.

Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í velferðarráði, Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir, vonum að fundurinn skili árangri og brugðist verði við strax á sama tíma og mörkuð verði stefna til frambúðar til úrlausna þessara mála. 

Með kærri kveðju, 

Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×