Skoðun

Stefnir í „spítala götunnar“?

Óli Stefáns Runólfsson skrifar
Bíllinn „Ragnheiður“ hefur verið á ferð á götum Reykjavíkur til að þjónusta fíknaefnaneytendur til að koma í veg fyrir frekari smit vegna margnota sprauta sem fíknaefnanotendur gjarnan nota. Svo hefur heyrst að ef lögreglan yrði með lyf í sínum vörslum gæti það orðið til bjargar í sumum tilfellum þar sem hún yrði kölluð til einhverra í neyð. Alltaf er gott að geta aðstoðað þá sem eru í nauðum staddir. Fari sem horfir verður þörfin fyrir aðstoð alltaf meiri og meiri. Fólki fjölgar og hætt við að fleiri verði í neyð. Samfara því vex kostnaður. Það þarf að fækka þeim sem þurfa á „spítala götunnar“ að halda.

Það þarf að ráðast að rótum vandans. Koma í veg fyrir að fólk ánetjist fíkniefnum. Er eitthvað í þjóðfélaginu sem ýtir fólki út í efnaneyslu? Eitthvað í þjóðfélaginu sem einstaklingurinn ræður ekki við, sem veldur því að hann fer út í neyslu?

Það ber töluvert á streitu í þessu þjóðfélagi. Keppni um völd og græðgi er mikil. Sumum vegnar betur en öðrum, oft vegna kunningsskapar, hjá þessari fámennu þjóð. Það er alltaf verið að deila um skiptingu „þjóðarkökunnar“, sumir telja sig fá of lítið miðað við aðra, en það ætti að vera grunnkrafa að allir fái fyrir grunnþörfum. Það er munur á að sumir fá 2-3 milj. í laun á mánuði (margir með mikið meira), en aðrir um þrjú hundruð þúsund á mánuði. Þjóðfélag okkar er sjúkt og þörf er breytinga. Það þarf mikið átak til að ráðast að rótum vandans, en það þarf að gera, annars magnast vandinn sem líkja mætti við snjóbolta sem veltur áfram og hleður sífellt á sig og stækkar. Það má víða finna ástæður þess í þjóðfélaginu að fólk misstígur sig á brautum lífsins.

Höfundur er rennismiður og eftirlaunaþegi




Skoðun

Sjá meira


×