Körfubolti

Íslenska nafnið hans Jóns Axels eitt það besta í Marsgeðveikinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenski körfuboltamaðurinn Jón Axel Guðmundsson, leikmaður Davidson-háskólans, verður fyrsti íslensku strákurinn sem tekur þátt í Marsgeðveikinni eins og úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans er kölluð.

Jón Axel hefur verið lykilmaður hjá Davidson allt tímabilið en liðið gerði sér lítið fyrir og vann sína deild og tryggði sér þannig sæti á stóra ballinu sem alla skóla landsins dreymir um að dansa á.

Bandarískt íþróttalíf fer nánast á hliðina þegar að úrslitakeppnin byrjar og snýst eiginlega allt um að velja sigurvegara allt frá fyrstu umferð í öllum leikjum og enda á því að velja meistarann. Miklir peningar eru oft í boði, en þetta er mjög vinsælt tómstundargaman hjá bandarísku þjóðinni.

ESPN birti á Facebook-síðu sinni í gær skemmtilegt myndband þar sem það leggur „brackets“, eins og það kallast að spá í úrslitunum, aðeins á hilluna og fór frekar að spá í aðeins skemmtilegri hlutum.

Einn þeirra var hver er ástsælasti þjálfarinn, en það er Ron Hunter, þjálfari Georgia State-háskólans. Hann er þekktur fyrir mikla ástúð og hreinlega að faðma íþróttafréttamenn í viðtölum eftir leiki.

Besta hárið var einnig valið og þar deildu nokkrir titlinum en svo var komið að glæsilegasta nafninu og þar var okkar maður, Jón Axel Guðmundsson, á meðal vinningshafa.

Íslenska nafnið Jón Axel Guðmundsson greinilega að vekja athygli ásamt öðrum frábærum nöfnun eins og „Tum Tum“ Nairn Jr. og Admiral Schofield.

Þetta létta myndband ESPN-manna má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×