Körfubolti

Fjórir stigahæstu leikmenn Finna í sigrinum á Íslandi á Eurobasket verða ekki með í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauri Markkanen í leiknum á móti Íslandi í september. Hér er Jón Arnór Stefánsson að reyna að stoppa hann.
Lauri Markkanen í leiknum á móti Íslandi í september. Hér er Jón Arnór Stefánsson að reyna að stoppa hann. Vísir/EPA
Finnar mæta án sterkra leikmanna í leikinn á móti Íslandi í Laugardalshöll í kvöld en þjóðirnar mætast þá í undankeppni HM í körfubolta.

Þjóðirnar mættust síðast á Eurobasket í Helsinki í september og þá unnu Finnar nauman fjögurra stiga sigur, 83-79.

Fjórir stigahæstu leikmenn finnska liðsins í þeim leik og fimm af þeim sex stigahæstu eru ekki með í leiknum í kvöld. Alls eru því farin 65 af 83 stigum Finna úr þeim leik. Í íslenska liðið vantar aðeins sex stig frá leiknum fyrir tæpum sex mánuðum síðan.

Stigahæstu Finnarnir úr síðasta leik þjóðanna voru þeir Lauri Markkanen (leikmaður Chicago Bulls í NBA), Sasu Salin (leikmaður Unicaja á Spáni), Petteri Koponen (leikmaður Barcelona á Spáni), Gerald Lee (leikmaður Maccabi Ashdod í Ísrael), Matti Nuutinen (leikmaður Pitesti í Rúmeníu) og Teemu Rannikko (leikmaður Kataja í Finnlandi).

Matti Nuutinen er sá eini af þeim sem verður með í kvöld en í síðasta leik á móti Íslandi var hann með 7 stig og 3 fráköst á 13 mínútum. Hinir fimm léku samtals í 124 mínútur í leiknum af þeim 200 sem voru í boði í leiknum í september.

Annar stigahæsti leikmaður finnska liðsins úr leiknum í september sem verður með í kvöld er Shawn Huff. Huff var með 5 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar á 27 mínútum í sigrinum á Íslandi á Eurobaket.

Mestu munar eflaust um fjarveru Lauri Markkanen sem skoraði 23 stig á 24 mínútum í leiknum á móti Íslandi en Finnarnir unnu með 14 stigum þegar hann var inná vellinum.  

Reynsluboltinn Petteri Koponen og Sasu Salin eru líka frábærir leikmenn með mikla reynslu og verður því sárt saknað. Báðir spila þeir á Spáni en spænsku lið þeirra leyfðu þeim ekki að taka þátt í þessum landsliðsverkefni.

Sasu Salin.Vísir/EPA


Stig Finna í 83-79 sigrinum á Íslandi 6. september síðastliðinn:


Lauri Markkanen 23 (Ekki með í kvöld)

Sasu Salin  17 (Ekki með í kvöld)

Petteri Koponen 10 (Ekki með í kvöld)

Gerald Lee 9 (Ekki með í kvöld)

Matti Nuutinen 7

Teemu Rannikko 6 (Ekki með í kvöld)

Shawn Huff 5

Tuukka Kotti 4

Carl Lindbom 2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×