Körfubolti

98 ára gömul nunna í stóru hlutverki hjá körfuboltaliði í bandaríska háskólakörfuboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nunna. Hún tengist fréttinni þó ekki beint.
Nunna. Hún tengist fréttinni þó ekki beint. Vísir/Getty
Aðstoðarfólkið í bandaríska háskólakörfuboltanum er af öllum stærðum og gerðum og eitt besta dæmið um það er hjá háskólaliði Loyola í NCAA.

Þar sér nefnilega 98 ára gömul nunna um að koma hugum leikmanna á réttan stað, fyrir og eftir leik, sem og að hjálpa þjálfaranum að greina bæði sína eigin leikmenn sem og mótherjanna.

Chicago Tribune blaðið skrifaði grein um gömlu konuna sem lætur ekki mjaðmargrindarbrot stoppa sig að sinna sínu liði.

Systir Jean Dolores Schmidt biður með strákunum fyrir hvern leik þar sem þeir hópast í kringum hana og hún fer með stutta ræðu.

Jean er fædd árið 1919 og lék sjálf körfubolta milli fyrri og seinni heimsstyrjaldar. Kvennakörfuboltinn þá var þó spilaður eftir allt öðrum reglum en í dag og Jean var ein af þeim sem mátti aldrei skjóta á körfuna.





Hún gerðist nunna eftir menntaskólann og fór síðan að kenna en hún var kennari í meira en hálfa öld. Hún hætti að vinna skömmu eftir að skólinn þar sem hún kenndi í 30 ár, Mundelein-háskólinn, var sameinaður Loyola.

Jean hélt þó áfram að fylgjast vel með krökkunum í skólanum og hjálpaði til. Það þótti síðan tilvalið að fá hana í hlutverk liðsprestsins þegar forverari hennar hætti í því starfi. Systir Jean var þá orðin sjötug en blómstraði í því starfi sem hún sinnir enn.

Nú hefur hún verið stór hluti af liðinu í meira en tvo áratugi. Í vetur lenti hún hinsvegar í því að mjaðmagrindabrotna og missti af níu leikjum. Jean snéri hinsvegar aftur og síðan þá hafa strákarnir safnast í kringum hjólastólinn hennar fyrir hvern leik.







Hún hjálpar ekki aðeins leikmönnunum með guðsorði heldur talar í þá kjark og þor sem og að hjálpa þeim að vinna sig í gegnum erfiða tíma. Það bíða allir eftir skilaboðunum frá systur Jean eftir leik.

Systir Jean hjálpar einnig þjálfaranum að leikgreina lið og mótherja. Hann hrósar henni fyrir góða þekkingu á leiknum og góð ráð.

Alla umfjöllun um Chicago Tribune um þessa merkilegu konu má finna hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×