Körfubolti

Valskonur með sannfærandi sigur | Skallarnir sækja á næstu lið

Úr leik Vals og Snæfells fyrr í vetur.
Úr leik Vals og Snæfells fyrr í vetur. vísir/vilhelm
Valur bætti við forskot sitt með 85-52 sigri gegn Breiðablik í Dominos-deild kvenna en sterkur varnarleikur Valsliðsins þýddi að sigurinn var í höfn í hálfleik.

Það var ekki að sjá neina jólaþreytu í Valsliðinu sem kláraði fyrsta leikhlutan 25-7 með frábærum varnarleik.

Valsliðið bætti við forskotið í öðrum leikhluta og leiddi 49-20 þegar leikmenn gengu til búningsklefa. Þrátt fyrir öruggt forskot náðu þær að bæta við forskotið í þriðja og fjórða leikhluta og unnu að lokum öruggan sigur.

Guðbjörg Sverrisdóttir var aðeins stoðsendingu frá þrefaldri tvennu með 13 stig, tíu fráköst og níu stoðsendingar ásamt því að verja tvö skot.

Í liði Blika var Ivory Crawford stigahæst með átján stig ásamt því að taka tíu fráköst en Blikar hittu aðeins úr 25% skota sínum í leiknum.

Á sama tíma vann Skallagrímur fimmtán stiga sigur á Njarðvík 76-61 og saxaði um leið á forskot næstu liða í baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Njarðvíkingar héldu í við Skallana framan af og voru sex stigum undir fyrir lokaleikhlutan en þá gáfu gestirnir í og kláruðu leikinn.

Shalonda R. Winton var stigahæst hjá Njarðvíkingum með 34 stig og 15 fráköst úr 25 skotum en Carmen Tyson-Thomas kom með 25 stig og 12 fráköst af bekknum hjá gestunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×