Körfubolti

Durant ætlar ekki í Hvíta húsið: Ber ekki virðingu fyrir Trump

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Kevin Durant ætlar ekki að hitta Donald Trump Bandaríkjaforseta ef Golden State Warriors verður boðið í Hvíta húsið eins og venjan er með NBA-meistara.

„Ég virði ekki þann sem situr í embætti,“ sagði Durant í samtali við ESPN. „Ég er ekki sammála honum. Ég læt í mér heyra með því að fara ekki.“

Durant segir að þetta sé hans persónulega ákvörðun en ekki liðsins. Hann segir þó að leikmenn Golden State séu sammála honum.

Að mati Durants er Trump ábyrgur fyrir uppgangi rasisma í Bandaríkjunum.

„Hann er drifkrafturinn á bak við þetta. Allt frá því hann var kosinn, eða síðan hann bauð sig fram, hefur þjóðin verið svo sundruð og það er ekki tilviljun. Þegar [Barack] Obama sat í embætti var útlitið bjartara og vonin meiri,“ sagði Durant.

„Það er eins og við höfum villst af leið. Þetta snýst allt um þá sem eru við völd. Ef við erum með leiðtoga sem er ekki annt um alla miðar okkur ekkert áfram. Á meðan hann er í embætti verður engin framþróun.“

Durant varð NBA-meistari á sínu fyrsta tímabili með Golden State og var valinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×