Körfubolti

Jón Arnór: Sérstakt að gera þetta tvisvar í röð

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Jón Arnór skoraði 10 stig í dag.
Jón Arnór skoraði 10 stig í dag. mynd/bára dröfn kristinsdóttir
Jón Arnór Stefánsson skoraði síðustu fjögur stig Íslands í sigrinum á Belgíu í Laugardalshöllinni í dag. Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti á EM, annað skiptið í röð.

„Þetta er frábær tilfinning. Hún var góð síðast en að gera þetta tvisvar í röð er mjög sérstakt,“ sagði Jón Arnór í samtali við Vísi eftir leik.

„Sérstaklega þar sem ég mun væntanlega spila mína síðustu landsleiki á stórmóti. Það er mjög dýrmætt.

„Þetta var alltaf á planinu. Eftir síðasta leikinn í Berlín voru menn staðráðnir í að komast aftur á EM, tilfinningin var það góð,“ bætti reynsluboltinn við.

Jón Arnór segir frábært að hafa tryggt sér sætið á EM með sigri, þótt tap með litlum mun hefði líklega dugað til að komast áfram.

„Við fórum í þennan leik til að vinna hann. Við fengum ekki að vita nein úrslit fyrir leikinn. Þeir eru með hörkulið og það sýnir mikinn andlegan styrk að vinna þá. Við vorum líka hvattir vel áfram af fullri höll og erum þakklátir fyrir það,“ sagði Jón Arnór sem hrósaði ungu mönnunum í íslenska liðinu.

„Það er gaman að sjá hvernig ungu strákarnir í liðinu hafa stigið upp og dregið vagninn. Og þótt það sé ekki hægt að kalla hann ungan, þá er Hlynur [Bæringsson] búinn að vera frábær í undankeppninni. Það er mjög gott því ég hef verið í lélegu standi.“

Þrátt fyrir að vera öruggir með EM-sætið spiluðu Belgarnir af fullum krafti og gáfu íslenska liðinu engan afslátt í leiknum í dag.

„Við vissum að þeir ætluðu að leggja allt í þetta. Þeir voru með peningabónusa undir og ætluðu að fara taplausir í gegnum riðilinn,“ sagði Jón Arnór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×