Skoðun

Ártalið bjargar þér ekki

Pawel Bartoszek skrifar
Af hverju má ég ekki taka þátt?“

„Þú varst bara sein að skrá þig!“

„Sein að skrá mig, var frestur?“

„Já, og svo ertu líka, þú veist?… kona.“

„Ertu að grínast? Ertu að segja mér að árið 1896 megi kona ekki keppa í hlaupi á Ólympíuleikunum, bara út af því að hún er kona?“

Fyrsta nútíma-maraþonið var hlaupið á fyrstu nútíma-Ólympíuleikum í Aþenu árið 1896. Þá reyndi kona að nafni Stamata Revíþí að taka þátt. Hún fékk ekki að ræsa með hópnum, hljóp sjálf degi síðar, var meinuð innganga á völlinn en fékk sjónarvotta til að votta tímann sinn. Síðan er lítið vitað hvað af henni varð. Allavega veit Wikipedia það ekki.

Fyrst kvenna til að hlaupa Boston-maraþonið var Bobbi Gibbs sem gerði það árið 1967. Það var nú bara í gær. Maður trúir því varla að fyrir fimmtíu árum hafi þótt í lagi að banna konum að hlaupa löng hlaup. En sumt fólk trúði því heldur ekki þá og lét eins og það væri jafnfáránlegt og það raunverulega var.

Þegar fólk segir hluti eins og „ég trúi því ekki að árið 2016 sé enn verið að mismuna fólki vegna kyns, kynhneigðar, trúar eða uppruna“ þá felur það í sér ákveðna hugmynd um að samfélagið sé stöðugt á leið í einhverja átt og að ekkert geti snúið þeirri þróun við. En þrátt fyrir að samfélag okkar sé betra nú en fyrir 100 árum þá þarf ekki að endilega að vera að sú þróun haldi áfram. Því miður vitum við að hugmyndir þeirra sem vilja mismuna fólki vegna kyns, kynhneigðar, trúar eða uppruna geta aftur orðið ofan á. Alveg óháð ártalinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×