Skoðun

Framkvæmdaáætlunin frá Peking 20 ára

Eygló Harðardóttir skrifar

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur 8. mars ár hvert. Dagurinn á sér sögu allt aftur til ársins 1910 en um 1970 fékk dagurinn viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna og síðan hafa kvennahreyfingin, verkalýðsfélög, stjórnvöld og alþjóðastofnanir sameinast um að nýta daginn málaflokknum til framdráttar.



Sameinuðu þjóðirnar fagna 70 ára afmæli á þessu ári. Fram kemur í inngangsorðum sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, sem öðlaðist gildi þann 24. október 1945, að meðal meginmarkmiða þeirra sé jafnrétti kvenna og karla. Meðal þeirra 160 aðila sem undirrituðu sáttmálann voru einungis 4 konur og endurspeglar það fæð kvenna í opinberu lífi. Að sama skapi hafði heimsbyggðin enga vitneskju um raunverulega stöðu kvenna fyrr en að Sameinuðu þjóðirnar réðust, í aðdraganda kvennáratugarins 1975–1985, í það verkefni að meta stöðu kvenna í hverju ríki fyrir sig. Í ljós kom að stór hluti kvenna bjó við réttindaleysi, fátækt og ofbeldi. Í dag eru konur enn í meirihluta þeirra sem lifa við skort á efnislegum gæðum og takmarkað aðgengi að áhrifastöðum á sviði stjórn- og efnahagsmála.



Í ár eru liðin 20 ár frá kvennaráðstefnunni í Peking þar sem merk framkvæmdaáætlun um jafnrétti var samþykkt. Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York er tileinkaður afmæli framkvæmdaáætlunarinnar sem í tólf köflum leggur grunn að starfi aðildarríkjanna á sviði jafnréttismála. Sömuleiðis er innihald nýrra þróunarmarkmiða til umræðu á fundinum. Norðurlöndin hafa sameinast í baráttu fyrir því að réttur kvenna til lífs án mismununar og ofbeldis verði virtur.



Sérstök áhersla er lögð á aðgengi kvenna að þjónustu á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis, t.d hvað varðar aðgengi að frjálsum fóstureyðingum og bann við limlestingum á kynfærum stúlkubarna og kvenna. Stjórnvöldum víða um heim má vera ljóst að án valdeflingar og þátttöku kvenna er ekki hægt að uppfylla markmið um frið, fæðuöryggi, lýðræðislega stofnanauppbyggingu og jafnt aðgengi að menntun svo að einhver dæmi séu nefnd.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×