Körfubolti

Árni Þór fær "sínar“ stelpur og Elínu til sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir í leik með Blikum í Dominos-deildinni síðasta vetur.
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir í leik með Blikum í Dominos-deildinni síðasta vetur. Vísir/Ernir
Kvennalið Hamars hefur fengið liðstyrk fyrir baráttuna í Dominos-deild kvenna í körfubolta á næsta tímabili en Árni Þór Hilmarsson nýráðinn þjálfari Hamarsliðsins, hefur verið duglegur að fá "sínar" stelpur til liðsins. Þetta kemur fram á karfan.is

Árni Þór hefur unnið frábært starf á Flúðum í mörg ár og skilað mörgum stelpum úr liði Hrunamanna inn í íslensku unglingalandsliðin. Árni Þór hefur nú fengið nokkrar þeirra til sín í Hveragerði þegar hann stígur sín fyrstu skref sem þjálfari í úrvalsdeild kvenna.

Heiðrún Kristmundsdóttir kemur til Hamars eftir fimm ára nám við Coker háskólann í Bandaríkjunum en þar á undan lék hún með KR og Hrunamönnum.

Elma Jóhannsdóttir og Anna Marý Karlsdóttir, hafa einnig ákveðið að spila með Hamar en þær eru báðar uppaldar hjá Hrunamönnum.  Nína Jenný Kristjánsdóttir og Hrafnhildur Magnúsdóttir koma einnig til Hamarsliðsins frá sameiginlegu liði Hrunamanna og FSu.

Hamarsliðið hefur líka passað upp á teiginn hjá sér því auk þess að Salbjörg Ragna Sævarsdóttir hafi framlengt samning sinn við félagið þá hefur einn efnilegasti miðherji landsins og lykilmaður Norðurlandameistara sextán ára liðs Íslands í fyrra, Blikinn Elín Sóley Hrafnkelsdóttir, ákveðið að spila með Hamar á komandi tímabili.

Reynsluboltinn Þórunn Bjarnadóttir hefur lagt skóna á hilluna en ætlar áfram að aðstoða liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×