
Vopnuð brjóst
Ég tók ákvörðuninni þegjandi og hljóðalaust. Fjórtán ára og óframfærin taldi ég mig lítið neitunarvald hafa. Ég beit á jaxlinn, arkaði inn sýningarpallinn og taldi niður sekúndurnar þar til allt yrði yfirstaðið. Þar til allt yrði gleymt.
Dagana eftir tískuvikuna fjölluðu innlendir sem erlendir miðlar um viðburðinn. Víða birtust myndir af tískupöllunum og var hönnuðum gert mishátt undir höfði. Það sem helst er þó minnisstætt er hve oft tiltekin stúlka í tilteknum klæðum birtist á síðum ólíkra miðla. Stundum uppstækkuð og í aðalhlutverki. Berbrjósta og fjórtán ára. Óframfærna ég.
Ég mun aldrei gleyma skömminni sem fylgdi í kjölfarið. Athugasemdunum og háðinu. Tárunum. Vanmáttarkennd fylgdi vitneskju um alla þá sem höfðu séð mig bera. Fjórtán ára, afhjúpuð og afvopnuð. En tíminn leið og myndirnar gleymdust. Internetið var ekki það svarthol sem við þekkjum í dag og samfélagsmiðlar ekki hluti þessa heims. Úrklippurnar fóru úr dreifingu og nýr fréttamatur rataði á matseðilinn.
Brjóstabyltingin #freethenipple fór vart framhjá vökulum augum í vikunni sem leið. Ung kona varð fyrir aðkasti vegna myndbirtingar af eigin brjóstum og kynsystur hennar sýndu samstöðu. Í kjölfarið bættust fleiri í hópinn. Ástæðunum fjölgaði og byltingin styrktist. Fórnarlömb hefndarkláms tóku völdin í sínar hendur, konur afneituðu vanlíðan vegna stærðar og lögunar, mæður ítrekuðu grunnhlutverk brjóstanna og enn aðrar sýndu brjóst sín í ókyngerðu samhengi - og allar skiluðu þær skömminni til föðurhúsanna.
Einhverjum þótti byltingin full víðfeðm og þar með merkingarlaus. Mér fannst margvísleikinn undirstrika mikilvægið - alla þá fjölbreyttu, manngerðu og tilgangslausu skömm sem konur bera í brjósti, vegna brjósta af brjóstumkennanlegum ástæðum.
Nútíma kvennabarátta á sér anga víða. Svo víða að stundum reynist snúið að ná samfellu og samhengi. Stundum verða árekstrar og stundum þarf að staldra við - því stundum étur byltingin börnin sín. Brjóstabyltingin ögraði viðteknum viðhorfum og hrærði í gömlum venjum. Breytingar taka tíma og fólk þarf rými til umhugsunar. Það er óábyrgt að velta ekki vöngum yfir stúlkum á mótunarárum sem vegna þrýstings beruðu sig á stafrænum miðlum. Það er óábyrgt að útiloka það óréttmæta mótlæti sem fylgt getur í kjölfarið. Berbrjósta samþykka táningsstúlkan á tískupallinum vissi vel að brjóst væru bara brjóst. Það breytti litlu um viðhorf annarra og það breytti litlu um skömmina. Það er ekki allra að leiða byltingu.
Brjóstabyltingin var falleg og kraftmikil samstöðuherferð hugrakkra kvenna. Hún snérist ekki um vilja okkar allra til að vera berbrjósta alls staðar alltaf. Hún snérist um sjálfsákvörðunarrétt og samstöðu. Hún snérist um vald til að setja mörk - og skyldu annarra til að virða þau óhikað. Hún snérist um óskilyrtan skilarétt á óréttmætri skömm. Um valdeflingu. Hún snérist um smekklegar myndir af stúlku á mótunarárum - fjórtán ára mér - sem aldrei áttu að vera klámvæddar. Hún snérist um daginn þegar kvenlíkaminn krafðist jafnréttis. Daginn þegar hefndarklám var gengisfellt. Daginn þegar fjölmörg brjóst náðu vopnum sínum aftur.
Skoðun

Tæknin hjálpar lesblindum
Guðmundur S. Johnsen skrifar

Tryggja þarf aðkomu sjómanna að fiskveiðiráðgjöfinni
Sigurjón Þórðarson skrifar

Opið bréf til Friðriks Þórs
Steven Meyers,Guðrún Elsa Bragadóttir,Ása Helga Hjörleifsdóttir,Brúsi Ólason,Erlendur Sveinsson,Heather Millard skrifar

Skjólveggur af körlum og ungum mönnum
Ólafur Elínarson skrifar

Menntamál eru ekki afgangsstærð
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

‘Vók’ er djók
Alexandra Briem skrifar

Er friður tálsýn eða verkefni?
Inga Daníelsdóttir skrifar

Kattahald
Jökull Jörgensen skrifar

Framtíðin er rafmögnuð
Jóhanna Hlín Auðunsdóttir skrifar

Ekki biðja um undanþágur heldur krefjast réttar samkvæmt EES-samningnum
Erna Bjarnadóttir skrifar

Þjóðarmorðið í blokkinni
Bjarni Þór Sigurbjörnsson skrifar

Breiðholtið er frábært! Gerum betur í umfjöllun og orðræðu
Kristín Dögg Kristinsdóttir skrifar

Ég hataði rafíþróttir!
Þorvaldur Daníelsson skrifar

Því miður hefur lítið breyst
Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar

Versta sem Ísland gæti gert
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Eru græn svæði í útrýmingarhættu í Reykjavík?
Sigrún Ásta Einarsdóttir skrifar

Efla á forvarnir og setja börn í öndvegi með 5,7 milljarða niðurskurði
Grímur Atlason skrifar

„...ég lærði líka að nota gagnrýna hugsun“
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar

Risastór niðurskurður ríkistjórnarinnar er áfall fyrir foreldra og börn í landinu
Sigurður Sigurðsson skrifar

Látið okkur í friði
Vilhjálmur Árnason skrifar

Gefðu fimmu!
Ágúst Arnar Þráinsson skrifar

Allar hendur á dekk!
Oddný G. Harðardóttir skrifar

Engin sátt án sannmælis
Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Að finna rétt veiðigjald...
Bolli Héðinsson skrifar

Hvað viltu að samskiptin á vinnustaðnum kosti?
Carmen Maja Valencia skrifar

Stórt inngrip í rekstur íþróttafélaga!
Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir skrifar

Börn voga sér inn í afbrotaheim fullorðinna eða er það öfugt?
Davíð Bergmann skrifar

Sósíalistaflokkurinn verður að snúast um meira en rassgatið á Gunnari Smára
Trausti Breiðfjörð Magnússon skrifar

Og hvað svo?
Eyrún Birna Davíðsdóttir skrifar

Óboðlegt svar um ótæka stjórnsýslu
Guðmundur Andri Thorsson skrifar