Innlent

Ekki tekst að ljúka kostnaðarmati fyrr en í fyrsta lagi um miðjan apríl

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ekki tókst að afgreiða tvö lagafrumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, á sviði húsnæðismála á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag þar sem ekki lá fyrir kostnaðarmat frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ekki tekst að ljúka kostnaðarmatinu fyrr en í fyrsta lagi um miðjan apríl. 

Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismá þar sem lagt er til að lögfest verði ákvæði um stofnframlög ríkisins annars vegar og stofnframlög sveitarfélaga hins vegar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum sem ætlaðar eru hópi leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum.

Gert er ráð fyrir að sveitarfélög og félög og félagasamtök, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, geti sótt um stofnframlög. Einnig er lagt til að heimilt verði að veita stofnframlög til húsnæðissamvinnufélaga sem hafa að markmiði að byggja, kaupa, eiga og hafa yfirumsjón með rekstri íbúðarhúsnæðis með búseturétti gegn greiðslu búseturéttargjalds og búsetugjalds.

Og hins vegar frumvarp um sérstaka húsnæðisstyrki, sem eru í eðli sínu húsnæðisbætur.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er ekki búist við að kostnaðarmat fjármála- og efnahagsráðuneytisins á fyrrnefndum frumvörpum liggi fyrir fyrr en um miðjan apríl í fyrsta lagi. Þá fyrst koma þau til afgreiðslu í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna.

Ef ef frumvörpin fara á annað borð í gegnum þingflokkana og ríkisstjórn er fremur líklegt að þau fái afgreiðslu í þinginu nema stjórnarandstaðan leggist alfarið gegn þeim og beiti málþófi. Er það talið fremur ólíklegt vegna eðlis frumvarpanna sem eiga að styrkja stöðu leigjenda og auka framboð leiguhúsnæðis á markaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×