Íslenski boltinn

Landsliðsþjálfaraleitin hjá KSÍ hefst væntanlega í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorlákur Árnason, þjálfari Stjörnunnar.
Þorlákur Árnason, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson hætti sem þjálfari íslenska kvennalandsliðsins fyrir helgi og það liggur á því hjá Knattspyrnusambandinu að finna nýjan þjálfara enda aðeins rúmur mánuður í fyrsta leik í undankeppni HM.

„Við erum að fara að setjast yfir þetta í fyrramálið (í morgun) og það er ekkert búið að ákveða næstu skref. Við höfum verið að velta þessu á milli okkar um helgina en við vorum á norrænum fundi,“ sagði Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Fréttablaðið í gær.

Það ræðst því ekki strax hvort auglýst verður í stöðuna eða hvort KSÍ fer í samningaviðræður við einhvern einstakan þjálfara.

En hverjir koma til greina? Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska liðsins Kristianstad, hlýtur þar að vera ofarlega á blaði sem og Þorlákur Árnason, þjálfari verðandi Íslandsmeistara Stjörnunnar.

KSÍ gæti líka farið sömu leið og þegar Sigurður Ragnar var ráðinn en sambandið réð þá óþekktan þjálfara fyrir liðið með frábærum árangri. Þá er alltaf möguleiki að fá erlendan þjálfara eins og var gert hjá karlaliðinu en það verður þó að teljast ólíkleg niðurstaða.

Íslenska kvennalandsliðið spilar sinn fyrsta leik í undankeppni HM á móti Sviss á Laugardalsvellinum 26. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×