Íslenski boltinn

Haukar unnu Djúpmenn í ótrúlegum sjö marka leik

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd / vilhelm
Haukar og BÍ/Bolungarvík mættust í mögnuðum leik að Ásvöllum í 1. deild karla í knattspyrnu í dag en leikurinn endaði 4-3 fyrir Hauka. Sigurmarkið koma í uppbótartíma eftir að Haukar höfðu lent 3-1 undir.

Heimamenn hófu leikinn vel og komust yfir eftir rúmlega tíu mínútna leik þegar Hilmar Rafn Emilsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Hauka.

Gestirnir að vestan urðu fyrir því áfalli að missa mann af velli eftir hálftíma leik þegar Nigel Quashie var rekinn af velli með rautt spjald eftir að hafa brotið á Ásgeiri Þór Ingólfssyni.

Í upphafi síaðri hálfleiksins náðu samt sem áður gestirnir að jafna metin þegar Hafsteinn Rúnar Helgason kom boltanum í netið. Aðeins fjórum mínútum síðar náði BÍ/Bolungarvík að komast yfir en þar var að verki Andri Rúnar Bjarnason úr langskoti. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum skoruðu síðan Djúpmenn þriðja mark sitt í leiknum og voru komnir tveimur mörkum yfir, 3-1.

Nokkrum mínútum síðar náðu Haukar að minnka muninn Brynjar Benediktsson kom boltanum í netið. Tíu mínútum fyrir leikslok náði síðan Hilmar Rafn Emilsson að jafna metin og sex mörk kominn í leikinn.

Eftir ótrúlegar lokamínútur voru það Haukamenn sem náðu að tryggja sér sigurinn í leiknum þegar Andri Steinn Birgisson skoraði sigurmarkið þegar þrjár mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma. Ótrúlegur leikur á ferðinni í Hafnafirðinum. Haukar eru í öðru sæti deildarinnar með 18 stig en BÍ/Bolungarvík er í því fjórða með 15.

Upplýsingar fengnar frá www.urslit.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×