Íslenski boltinn

Víkingar sóttu sigur til Grindavíkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn Magnússon og Scott Ramsay eigast hér við.
Kristinn Magnússon og Scott Ramsay eigast hér við. Mynd/Valli
Keppni í 1. deild karla hófst í dag og er fyrstu fjórum leikjunum lokið. Víkingur frá Reykjavík gerði góða ferð til Grindavíkur.

Víkingar unnu góðan 2-1 sigur suður með sjó þar sem að Dofri Snorrason skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok.

Víkingar komust yfir snemma leiks með sjálfsmarki Daníels Leó Grétarssonar en Stefán Þór Pálsson jafnaði metin fyrir heimamenn á 76. mínútu.

Grindavík féll úr Pepsi-deild karla í haust og talið einna líklegast liða í deildinni til að komast upp í haust. En Víkingar gera einnig tilkall til þess og byrja tímabilið vel.

Haukar, undir stjórn Ólafs Jóhannessonar, ætla sér einnig stóra hluti í sumar og hófu tímabilið með 2-1 sigri á Þrótti á útivelli. Ásgeir Þór Ingólfsson og Hafsteinn Briem skoruðu mörk Hauka en Sveinbjörn Jónasson fyrir Þrótt.

BÍ/Bolungarvík vann 1-0 sigur á nýliðum Völsungs á Húsavík, 1-0, þar sem að Hafsteinn Rúnar Helgason skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

Leiknir og Tindastóll gerði 1-1 jafntefli en bæði mörkin komu á síðasta stundarfjórðungnum. Fyrst kom Elvar Páll Sigurðsson Tindastóli yfir en Indriði Áki Þorláksson, lánsmaður frá Val, jafnaði metin fyrir Leikni.

Tveimur leikjum er ekki lokið en þar mætast Selfoss og KA annars vegar og Fjölnir og KF hins vegar.

Upplýsingar um markaskorara frá úrslit.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×