Körfubolti

Ná Haukakonur aftur Suðurnesjaþrennunni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukakonan Auður Ólafsdóttir.
Haukakonan Auður Ólafsdóttir. Mynd/Valli
Heil umferð fer fram í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld og þar gætu línur skýrst út um alla töflu. Keflavík og Snæfell berjast um deildarmeistaratitilinn, KR og Valur berjast um 3. sætið, Haukakonur lifa í voninni um sæti í úrslitakeppninni og Fjölnir þarf að vinna til að setja spennu í fallbaráttuna.

Keflavíkurkonur töpuðu fyrsta leik eftir sigur liðsins í bikarúrslitaleiknum en þær hafa ekki tapað tveimur leikjum í röð í deild og bikar í vetur og taka á móti Grindavík í kvöld. Keflavík er með fjögurra stiga forskot á Snæfelli í baráttunni um deildarmeistaratitilinn.

Snæfell tekur á móti Fjölni í hinum einvígi kvöldsins á milli efstu og neðstu liðanna. Fjölnir er í neðsta sæti sex stigum á eftir Grindavík og Fjölniskonur þurfa að fara að vinna leiki ætli þær sér að spila áfram í deildinni. Snæfell minnkaði forskot Keflavíkur í fjögur stig í síðustu umferð en eftir þrjú heimatöp í röð í deild og bikar eru Hólmarar ólmir í að fagna sigri í Fjárhúsinu.

Valskonur taka á móti sjóðheitu KR-liði þar sem Vesturbæjarliðið getur nánast tryggt sér í það minnsta þriðja sætið með sigri. KR-konur eru búnar að vinna fimm leiki í röð og geta náð sex stiga forskoti á Val með sigri. Þær þurfa hinsvegar að vinna leikinn með 48 stigum til að vera með betri stöðu í innbyrðisleikjum. Valsliðið er búið að tapa þremur leikjum í röð þar á meðal var bikarúrslitaleikurinn á móti Keflavík.

Lokaleikur kvöldsins er síðan á milli Njarðvíkur og Hauka í Ljónagryfjunni. Haukakonur hafa unnið Grindavík og Keflavík í síðustu leikjum sínum og eiga möguleika á að ná Suðurnesjaþrennu í annað skiptið á þessu ári. Haukar unnu líka öll Suðurnesjaliðin þrjú í einum rykk í janúarmánuði.



Leikir kvöldsins í Dominos-deild kvenna í körfubolta:

(Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15)

Toyota höllin í Keflavík: Keflavík - Grindavík

Ljónagryfjan í Njarðvík: Njarðvík - Haukar

Fjárhúsið í Stykkishólmi: Snæfell - Fjölnir

Vodafone-höllin á Hlíðarenda: Valur - KR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×