Skoðun

Gagnlegir sögulærdómar

Árið 1956 var mynduð vinstrisinnuð ríkisstjórn á Íslandi undir forystu framsóknarmannsins Hermanns Jónassonar. Auk Framsóknarflokksins stóðu Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn að stjórninni; Sjálfstæðisflokkurinn einn var skilinn eftir í stjórnarandstöðu, eftir að hann hafði átt aðild að öllum ríkisstjórnum í tólf ár.

Forseti Alþýðusambands Íslands varð ráðherra í stjórninni. Á tíma hennar fór verðbólga mjög vaxandi, og var því einkum kennt um að fullar vísitölubætur voru greiddar á laun; verðlagið hækkaði launin og launin hækkuðu verðlagið. Á árinu 1958 var svo komið að 1. desember áttu samningsbundin laun að hækka um 17% vegna verðlagshækkana. Forsætisráðherra fór fram á það við Alþýðusambandsþing að það féllist á að þessari launahækkun yrði frestað um mánuð meðan leitað væri lausna á þeim verðbólguvanda sem mundi leiða af hækkuninni.

Lækkaði laun

Um þetta synjaði Alþýðusambandið, ríkisstjórnin sagði af sér og við tók næstum 13 ára langt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, fyrst með minnihlutastjórn Alþýðuflokksins (sem var þá í litlum tengslum við verkalýðshreyfinguna), síðar með þriggja kjörtímabila langri setu viðreisnarstjórnarinnar þar sem sjálfstæðismenn voru í forsæti. Þessi meirihluti ekki aðeins bannaði vísitölubætur á laun; hann beinlínis lækkaði öll samningsbundin laun með lögum snemma árs 1959. Þetta var árangur Alþýðusambandsins af því að bregðast vinveittri ríkisstjórn.

Í rúst

Á árunum 1974–79 var Verkamannaflokkurinn við stjórn í Bretlandi. Þetta voru tímar verðbólgu og atvinnuleysis, og gekk á ýmsu um samstarf ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna.

Veturinn 1978–79 hefur verið kallaður vetur óánægjunnar í breskum stjórnmálum (með vísun í leikrit Shakespeares um Ríkharð þriðja), og fór svo árið 1979 að meirihluti kjósenda valdi Íhaldsflokkinn til að fara með stjórn ríkisins. Við tók Thatchertímabilið, tveggja áratuga valdatími Íhaldsins, sem notaði völd sín meðal annars til að leggja verkalýðshreyfinguna nánast í rúst, einhverja sterkustu og óbilgjörnustu verkalýðshreyfingu í heimi. Þetta hafði hún upp úr því að bregðast vinveittri ríkisstjórn.

Skyldu Gylfi Arnbjörnsson og aðrir forystumenn í Alþýðusambandi Íslands þekkja þessi sögulegu dæmi?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×