Skoðun

SagaPro – Náttúrumeðal eða della

Reynir Eyjólfsson skrifar
Um mörg undanfarin ár hafa hérlendis verið á markaði SagaPro, s.k. fæðubótartöflur, sem sagðar eru innihalda 100 mg af jurtaefni úr völdu laufi ætihvannar. Á heimasíðu framleiðanda (www.sagamedica.is) er staðhæft að varan komi að gagni við tíðum þvaglátum. Einnig hafa birzt auglýsingar sama efnis í dagblöðum, sem einna helzt minna á staðhæfingar um lækningamátt snákaolíu í USA um aldamótin 1900. Töflurnar eru dýrar en lyfjatæknilega lélegar – sumar þeirra molna við það eitt að vera þrýst úr þynnupakkningunum.

Í hittiðfyrra auglýsti framleiðandinn eftir sjálfboðaliðum til þátttöku í klínískri rannsókn á virkni SagaPro og niðurstöðurnar hafa nýlega verið birtar. Samkvæmt þeim var enginn tölfræðilega marktækur munur á áhrifum SagaPro og lyfleysu (placebo). Meginniðurstaðan var að SagaPro hefði ekki skaðleg áhrif. Um þetta verður ekkert fullyrt hér – aðeins skal bent á að Practical Guide to Natural Medicines (APhA, 1999, bls. 37) nefnir að fúrókúmarínarnir í ætihvönn geti orsakað krabbamein og/eða hættulegar frumubreytingar í tilraunadýrum.

Mér er ljóst að umræða af þessu tagi er ekki vinsæl af framleiðendum svonefndra náttúrumeðala. Nærtækt dæmi er svokölluð kvöldvorrósarolía, sem á sínum tíma átti að vera allra meina bót en svo reyndist auðvitað ekki vera frekar en risaskammtar af C-vítamíni áttu að vera vörn gegn krabbameini í blöðruhálskirtli. Aðalforsvarsmaður þeirrar kenningar (Linus Pauling, nóbelsverðlaunahafi fyrir annað) dó samt einmitt úr þeim sjúkdómi.

Ráðlegging mín til þeirra sem þjást af tíðum þvaglátum er þessi: Leitið læknis til að ganga úr skugga um hvað veldur. Ef um góðkynja stækkun blöðruhálskirtilsins er að ræða er völ á mörgum lyfjum, sem eru með vísindalega sannaða virkni. Að mínum dómi er SagaPro ekkert annað en fáránleg della.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×