Íslenski boltinn

Margrét Lára var spöruð á móti Svíum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir og systir hennar Elísa sem er að spila sína fyrstu landsleiki á Algarve.
Margrét Lára Viðarsdóttir og systir hennar Elísa sem er að spila sína fyrstu landsleiki á Algarve. Mynd/Fébókarsíða KSÍ
Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi, tók ekki þátt í leiknum á móti Svíum í Algarvebikarnum í dag. Íslenska liðið tapaði leiknum 1-4.

„Við ákváðum að gefa henni alveg frí í dag og það var sameiginleg ákvörðun hjá okkur öllum," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, þegar hann var spurður út í fjarvegu Margrétar eftir leikinn.

„Margrét Lára finnur fyrir meiðslum og stífleika aftan í lærunum. Hún er að fara í mikið og stíft leikjaprógramm með Potsdam stuttu eftir mótið og svo er aftur landsleikur hjá okkur í byrjun apríl. Við hefðum ekki gert neinum greiða með því að spila henni of mikið," sagði Sigurður Ragnar.

„Við þurftum líka að skoða aðra möguleika frammi og þurfum að hafa eitthvað til vara fyrir hana líka," sagði Sigurður Ragnar sem var ánægður með frammistöðu Hólmfríðar Magnúsdóttur í stöðu fremsta manns.

Íslenska liðið mætir næst Kína á mánudaginn og þá má búast við því að Margrét Lára komi aftur inn í liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×