Íslenski boltinn

Rúnar: Það á að ráða yfirmann knattspyrnumála hjá KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson í leik með íslenska landsliðinu.
Rúnar Kristinsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR og leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi,var gestur Heimis Karlssonar í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem að hann tjáði sig um íslenska karlalandsliðið í fótbolta sem vann 1-0 sigur á Kýpur í gær.

Rúnar var spurður út í næsta landsliðsþjálfara en hann vill að sambandið finn fyrst mann sem skipuleggi allt landsliðsstarfið frá A til Ö.

„Það þarf að gera þetta í víðara samhengi. Knattspyrnusambandið þarf að ráða mann sem yfirmann knattspyrnumála, mann sem hefur einhverja knattspyrnulega þekkingu og hugsanlega sögu af því að leikið knattspyrnu. Sá maður þarf að mynda einhverja stefnu í landsliðsmálum karla og kvenna frá yngsta landsliðinu og upp í A-landslið," segir Rúnar.

„Þegar búið er að gera það þá er hægt að ráða þjálfara sem er tilbúinn að vinna eftir þeirri stefnu. Það má ekki vera þannig eins og það er núna að það sé liggur við rifildi á milli A-landsliðsþjálfara og þjálfara 21 árs landsliðsins um hvar leikmaðurinn á að spila. Þarna á að vera skýr skil og það á verður að vera ákveðin regla," segir Rúnar en hvernig landsliðsþjálfara vill hann sjá?

„Ég vil ekki fá harðstjóra í þetta starf því það er leið sem er orðin mjög gömul og menn eru hættir að nota. Auðvitað þurfa menn eitthvað að byrsta sig inn á milli en það er ekki hægt að reka knattspyrnumenn áfram eins og einhver dýr. Það þarf að tala menn, gefa þeim leiðbeiningar um ákveðnar hlaupaleiðir og ákveðna taktík," segir Rúnar.

Rúnar var síðan spurður sjálfur út í það hvort að hann hafi áhuga á því að taka við liðinu. „Ég væri alveg tilbúinn að vera landsliðsþjálfari en hvort að það sé rétta tímasetningin núna það er ég ekki viss um," sagði Rúnar við því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×