Íslenski boltinn

Sigurganga Skagamanna heldur áfram - Selfyssingar á skriði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Haraldur
Skagamenn eru áfram með sex stiga forskot í 1. deild karla eftir 1-0 sigur á Haukum á Ásvöllum í kvöld. Selfoss er í 2. sætinu eftir 3-0 sigur á KA og BÍ/Bolungarvík komst upp í 3. sætið eftir 2-1 sigur á botnliði HK.

Arnar Már Guðjónsson tryggði ÍA 1-0 sigur á Haukum með marki út vítaspyrnu strax á 14. mínútu en þetta var sjötti sigur Skagamanna í sjö leikjum. Þetta er í annað sinn í sumar sem Arnar tryggði ÍA sigur af vítapunktinum.

Selfyssingar unnu sinn þriðja leik í röð þegar þeir skelltu KA-mönnum 3-0 á Selfossi. Andri Freyr Björnsson skoraði tvö mörk í leiknum og Viðar Örn Kjartansson innsiglaði síðan sigurinn en Selfossliðið hefur skorað þrjú mörk eða meira í þessum þremur sigurleikjum.

Matthías Króknes Jóhannsson tryggði BÍ/Bolungarvík 1-0 sigur á HK fyrir vestan en Hólmbert Aron Friðjónsson kom HK í 1-0 eftir átta mínútna leik og þannig var staðan í 52 mínútur. Tomi Ameobi jafnaði leikinn á 60. mínútu og Matthías skoraði sigurmarkið fimm mínútum síðar.

Kristján Finnbogason hélt marki Gróttu hreinu í þriðja sinn í síðustu fjórum leikjum þegar Fjölnir og Grótta gerðu markalaust jafntefli í Grafarvoginum. Grótta hefur náð í átta stig í þessum fjórum leikjum.

Úrslit og markaskorar í 1. deild karla í kvöld:Haukar-ÍA 0-1

0-1 Arnar Már Guðjónsson, víti (14.)

Fjölnir-Grótta 0-0

BÍ/Bolungarvík-HK 2-1

0-1 Hólmbert Aron Friðjónsson (8.), 1-1 Tomi Ameobi (60.), 2-1 Matthías Króknes Jóhannsson (67.)

Selfoss-KA 3-0

1-0 Andri Freyr Björnsson (45.), 2-0 Andri Freyr Björnsson (46.), 3-0 Viðar Örn Kjartansson (65.)

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×