Íslenski boltinn

Óskar Örn tryggði KR fimmta sigurinn í röð í Lengjubikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson.
KR-ingar héldu sigurgöngu sinni áfram í Lengjubikarnum í gær en liðið vann þá 1-0 sigur á nýliðum Þór Akureyrar þrátt fyrir að leika manni færri í 47 mínútur. Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmarkið á 55. mínútu leiksins.

Hannes Þór Halldórsson markvörður KR fékk rauða spjaldið tveimur mínútum fyrir hálfleik fyrir að taka boltann með höndum fyrir utan vítateig. Óskar Örn skoraði sigurmarkið sitt með skalla eftir fyrirgjöf frá Kjartani Henry Finnbogasyni.

KR-ingar eru með fullt hús eftir fimm leiki, þeir eru með sex stiga forskot á ÍA og geta tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri gegn Skagamönnum um næstu helgi. Þórsarar eru í fjórða sæti riðilsins með sex stig.

Tveir aðrir leikir fóru fram í sama riðli í gær. Keflavík vann 4-2 sigur á KA þar sem Hilmar Geir Eiðsson skoraði tvö mörk fyrir Keflavík og þeir Andri Steinn Birgisson og Magnús Þórir Matthíasson skoruðu hin tvö. Hallgrimur Mar Steingrímsson og Elvar Páll Sigurðsson jöfnuðu í tvígang fyrir norðanmenn. Keflavík er í 3.sæti riðilsins tveimur stigum á eftir ÍA sem er í öðru sæti.

Grótta og Selfoss gerðu 1-1 jafntefli í Kórnum. Ibrahima Ndiaye kom Selfoss yfir en Magnús Bernhard jafnaði úr víti.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af fótbolti.net






Fleiri fréttir

Sjá meira


×