Körfubolti

KR sló út Snæfell - rafmagnið fór af húsinu í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingarnir Chazny Morris, Margrét Kara Sturludóttir og Signý Hermannsdóttir.
KR-ingarnir Chazny Morris, Margrét Kara Sturludóttir og Signý Hermannsdóttir.
KR-konur tryggðu sér sér sæti í undanúrslitum í Iceland Express deild kvenna í körfubolta eftir átta stiga sigur á Snæfelli, 84-76, í Stykkishólmi í kvöld. KR mætir Keflavík í undanúrslitunum en liðin hafa mæst í öllum keppnum á tímabilinu og hefur Keflavík haft betur í öllum leikjunum. Leikurinn í Hólminum í kvöld tafðist nokkuð undir lokin eftir að rafmagnið fór af húsinu en Stykkishólmur var rafmagnslaus um tíma í kvöld.

Chazny Morris skoraði 25 stig fyrir KR, Margrét Kara Sturludóttir var með 23 stig og Hildur Sigurðardóttir skoraði 14 stig. Monique Martin var með 20 stig og 10 fráköst hjá Snæfelli, Laura Audere skoraði 19 stig og Berglind Gunnarsdóttir var með 13 stig.

KR byrjaði leikinn vel í kvöld og var 23-15 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Snæfell minnkaði muninn í 33-35 fyrir hálfleik og var síðan komið sex stigum stigum yfir, 43-37, eftir að hafa skorað 10 af fyrstu 12 stigum seinni hálfleiksins.

KR-liðið var hinsvegar sterkara, vann síðustu sjö mínútur þriðja leikhlutans 27-11 og var með tíu stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 64-54. Snæfell náði aðeins að minnka muninn í fjórða leikhlutanum en náði ekki að brúa bilið.

Þegar ein mínúta og þrettán sekúndur voru eftir af leiknum þá fór rafmagnið af öllum bænum og leikurinn tafðist því í um fimmtán mínútur. Snæfellsliðið náði muninum niður í fimm stig eftir að leikurinn hófst á ný eftir þessa töf en KR-liðið hélt út og tryggði sér sæti í undanúrslitunum.

Snæfell-KR 76-84 (15-21, 18-14, 21-29, 22-20)Snæfell : Monique Martin 20/10 fráköst, Laura Audere 19/6 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 13/4 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 10/6 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 6/4 fráköst, Sara Mjöll Magnúsdóttir 3, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2/4 fráköst.

KR: Chazny Paige  Morris 25/9 fráköst/3 varin skot, Margrét Kara Sturludóttir 23/5 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 14/5 fráköst/5 stoðsendingar, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 10/6 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 4/5 fráköst, Signý Hermannsdóttir 3/6 fráköst, Sólveig Helga  Gunnlaugsdóttir 3, Svandís Anna Sigurðardóttir 2.

KR vann einvígið 2-0 og mætir Keflavík í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×