Íslenski boltinn

Hver einasta snerting landsliðsmanna Íslands verður skoðuð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson. Mynd/Vilhelm
Knattspyrnusamband Íslands hefur gert samning við Prozone um leikgreiningu á landsleikjum Íslands næstu tvö árin en landsliðsþjálfarar Íslands hafa þá aðgang að mjög ítarlegum upplýsingum um frammistöðu leikmanna í landsleikjum. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Samningurinn felur í sér að Prozone leikgreinir 60 leiki á ári næstu tvö árin. KSÍ mun nýta þessa leiki til leikgreiningar á leikjum landsliða Íslands en landsliðsþjálfarar hafa líka möguleika á að láta leikgreina leiki væntanlegra mótherja okkar til að hjálpa til við að undirbúa landslið okkar sem best.

Samningurinn felur í sér að hver leikur er greindur niður í um 2.500 atriði og skilað tilbaka til KSÍ innan sólarhrings eftir að leikurinn hefur verið sendur til Prozone.  Hver einasta snerting hvers leikmanns í leiknum er greind niður og flokkuð og hægt verður að fá nákvæmt yfirlit yfir framlag hvers leikmanns sem tók þátt í leiknum.

Leikgreiningin er frábært stuðningstól fyrir landsliðsþjálfarana og er í raun bylting hvað varðar möguleika til leikgreiningar á landsliðum Íslands og mótherjum.

 

Prozone er leiðandi fyrirtæki í heiminum á sviði leikgreiningar í knattspyrnu.  Meira og minna allir stærstu klúbbar og knattspyrnusambönd í heiminum nota Prozone.  Með þessum samningi er KSÍ að stíga mikilvægt skref í að bæta umgjörð og undirbúning landsliða okkar til að hjálpa þeim að ná áfram góðum árangri á alþjóðavettvangi. Fyrstu landsleikirnir sem verða leikgreindir verða landsleikir A-landsliðs kvenna á Algarve Cup mótinu í byrjun mars.

Nú er bara að sjá hvort þessar niðurstöður frá Prozone verði algjörar hernaðarupplýsingar eða hvort að fjölmiðlar eða knattspyrnuáhugafólk fái aðgang að þeim. Hvernig sem það verður þá ættu landsliðsþjálfararnir að vera með allt á hreinu hvernig landsliðsfólkið okkar er að standa sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×