Íslenski boltinn

Brynjar meiddur og Grétar tæpur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Grétar á landsliðsæfingu í gær.
Grétar á landsliðsæfingu í gær. Fréttablaðið/Anton
Það er skarð fyrir skildi í íslenska landsliðinu að Brynjar Björn Gunnarsson getur ekki spilað leikinn í kvöld. Hann meiddist í leik með Reading um síðustu helgi og hefur enn ekki jafnað sig.

„Það er einnig mjög tæpt að hann geti spilað með okkur gegn Danmörku eftir helgi," sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.

Grétar Rafn Steinsson hefur verið að glíma við meiðsli en hann er bjartsýnn á að geta verið með af fullum krafti í kvöld.

„Ég er ágætur. Ég hef tekið rólega á því á æfingum síðustu daga. Það hefur verið mikið álag á mér en það sem skiptir máli er að vera í standi þegar leikurinn hefst. Það þýðir ekkert að vera bestur á æfingum í upphafi vikunnar. Ég verð klár þegar leikurinn verður flautaður á," sagði Grétar Rafn og Ólafur bætti því við að hann reiknaði með Grétari sterkum í leiknum.

Rúrik Gíslason hefur verið veikur síðustu daga en Ólafur sagðist einnig vonast til þess að hann yrði klár í slaginn í kvöld.

Ólafur segir ekki ljóst hvort hann muni bæta nýjum leikmönnum við hópinn. Hann ætlar að taka stöðuna eftir leikinn í kvöld og sjá til hvort einhverjir fleiri leikmenn verði fyrir hnjaski. Ef allt upp í þrír leikmenn detta úr hópnum mun hann taka nýja menn inn ef aðeins Brynjar verður fjarverandi býst hann ekki við því að kalla á nýja menn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×