Íslenski boltinn

Rúrik: Einstaklega ljúft

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar

„Það var erfitt að spila á þessum útivelli og vita að þeim hefði dugað 1-0 sigur til að komast áfram,“ sagði Rúrik Gíslason eftir sigur Íslands á Skotlandi í kvöld.

Ísland er nú komið í úrslitakeppni EM U-21 liða sem fer fram í Danmörku á næsta ári. Ísland vann 2-1 sigur í kvöld eftir markalausan og erfiðan fyrri hálfleik.

„Við vorum ekki nógu góðir í fyrri hálfleik en náðum að rífa okkur upp af rassgatinu í síðari hálfleik. Menn fengu dýrmæta reynslu í þessum leik og verða betri af því. Menn gerðu vissulega mistök í þessum leik en það eina sem skiptir máli er að við komumst áfram og náðum sögulegum árangri í íslenskri knattspyrnu.“

„Frammistaða okkar í undankeppninni allri hefur verið frábær. Markatalan er frábær og sýnir vel styrkleika liðsins. Við vorum ekki endilega að vinna nauma sigra heldur oft með 5-6 marka mun.“

„Þó svo að leikurinn í dag hefði mátt vera betri erum við ekkert að hugsa um það. Við hugsum aðeins um það að njóta augnabliksins og þessum frábæra árangri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×