Skoðun

Persónu­vernd – hvert stefnum við?

Helga Þórisdóttir skrifar

Ef litið er til mannkynssögunnar, þá er hugtakið „réttindi einstaklinga“ frekar nýtilkomið. Það var ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina, og þau voðaverk sem þá voru unnin, sem mannréttindi voru fest í sessi með þeim hætti sem við þekkjum í dag. Á þessum grunni voru samþykktir alþjóðlegir samningar, sem Ísland gerðist aðili að. Þessi þróun hélt áfram og árið 1995 var samþykkt að bæta við mannréttindakafla í íslensku stjórnarskrána. Þar var í fyrsta sinn rætt um friðhelgi okkar einkalífs, sem felur í sér að við eigum rétt til að ráða yfir lífi okkar og til að njóta friðar um lífshætti okkar og einkahagi. Persónuupplýsingar eru þáttur í friðhelgi hvers einstaklings og með samþykkt evrópsku persónuverndarreglugerðarinnar árið 2018 var síðan enn stigið stórt varnarskref. Þá var ákveðið að með frekari framförum í tækni ætti ætíð að virða mannleg gildi. Með öðrum orðum, þá á tæknin ekki að vinna gegn einstaklingum. Og hvorki stjórnvöld né fyrirtæki mega ganga of nærri okkur með nærgöngulli rýni, í okkar dagsdaglega lífi.

Hvað eru stafræn fótspor?

Fáir sáu fyrir þau risaskref sem stigin hafa verið með tækninni undanfarin ár og allar þær breytingar sem þeim hafa fylgt. Til hefur orðið nýr veruleiki með svokölluðum stafrænum fótsporum. Þau fela meðal annars í sér að hver einasta leit okkar á vefnum er skráð og fyrir átta árum var með tækninni þegar búið að greina um 52.000 mismunandi mannlega eiginleika til að skipa okkur í mismunandi hópa (EDPS Opinion on online manipulation and personal data - nr. 3/2018). Hóparnir skilgreina þannig manngerð viðkomandi, frammistöðu í starfi, lánshæfi, heilsuhagi, áhugamál, venjur, sjálfsöryggi, kvíða og staðsetningu okkar, svo örfá dæmi séu nefnd. Þessi greiningargeta tækninnar hefur leitt til þess að persónugreinanlegar upplýsingar eru helsta söluvara heimsins í dag. Gögnin hafa orðið að drifkrafti upplýsingasamfélagsins.

Hvert stefnum við?

Á hinni góðu vegferð Evrópu við að vernda einstaklinginn hefur verið bent á að hið tæknilega regluverk þar sé í heild sinni orðið of íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Reglurnar hefti um of framþróun og nýsköpun á EES-svæðinu og með þeim verði Evrópa eftirbátur Bandaríkjanna og Kína. Framkvæmdastjórn ESB hefur nú brugðist við þessu og kynnt til sögunnar Omnibus-pakka, sem á að styrkja stafræna framtíð Evrópu. Tillögurnar varða löggjöf sambandsins um stafræna markaðinn, en þær snúast meðal annars um að breyta og einfalda persónuverndarlöggjöfina í þeim tilgangi að einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja. Í því umhverfi sem við búum við í dag skiptir þó eftir sem áður miklu að fyrirtæki og aðrir sjái sér hag í að fara vel með gögnin okkar. Hafi það einhvern tíma skipt máli, þá er það nú.

Afmæli Persónuverndar

Persónuvernd var stofnuð í ársbyrjun 2001 og fagnar því 25 ára afmæli sínu um þessar mundir. Af því tilefni býður stofnunin til afmælismálþings í dag. 28. janúar, á alþjóðlegum degi persónuverndar, undir yfirskriftinni „Persónuvernd – hvert stefnum við?“ Nánari upplýsingar um málþingið má nálgast á vefsíðu Persónuverndar, en allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Höfudur er forstjóri Persónuverndar.




Skoðun

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×