Skoðun

Þegar engin önnur leið er fær

Rebekka Maren Þórarinsdóttir skrifar

Tæknifrjóvgun er ekki lausn fyrir alla. Fyrir hluta fólks endar sú leið án árangurs þrátt fyrir langvarandi meðferðir sem geta farið fram bæði hérlendis og erlendis.

Fjárhagslegt álag og tilfinningalegir erfiðleikar fylgja oft slíkum meðferðum auk þess sem oft er mikið álag og sorg hjá fólki sem er komið að leiðarlokum um að fá draum sinn uppfylltan um að eignast fjölskyldu. Sumir upplifa einnig mikil veikindi vegna þeirra ónæmisbælandi lyfja sem eru t.d. notuð erlendis.

Þegar hér er komið við sögu, er ættleiðing oft eina raunhæfa leiðin til að stofna fjölskyldu og í sumum tilfellum myndi fólk frekar velja þá leið heldur en að láta reyna á tæknifrjóvganir og eru margar ástæður sem liggja að baki slíkrar ákvörðunar. Þar vegur þungt bæði líkamlegt- og andlegt álag sem tæknifrjóvgun getur haft í för með sér, ekki síst þegar árangur lætur á sér standa eða meðferðir dragast á langinn. Fyrir suma verður sú leið einfaldlega of kostnaðarsöm og íþyngjandi. Í slíkum aðstæðum skiptir máli að raunhæfir og öruggir valkostir standi fólki til boða.

Ættleiðing erlendis frá hefur verið um langt skeið einn slíkur valkostur fyrir Íslendinga. Ekki síst þegar önnur úrræði hafa þegar reynst árangurslaus. Það á sérstaklega við um ættleiðingar frá m.a. löndum eins og Indlandi. Þar sem samstarf var áður fyrr til staðar og reynslan af ferlinu góð.

Félagið Íslensk ættleiðing, hefur staðið í viðræðum að fá ættleiðingar leyfðar aftur frá Indlandi til Íslands. Þrátt fyrir að áhugi sé til staðar frá indverskum stjórnvöldum að sögn ættleiddra einstaklinga sem hafa heimsótt Indland, að þá kemur félagið að tómum dyrum. Umræðan virðist stoppa hjá Dómsmálaráðuneytinu sem telur að þar sem tæknifrjóvganir virðast hjálpa mörgum að eignast barn, en alls ekki öllum, að þá sé þetta ekki nógu mikilvægt málefni að þeirra mati að leyfa ættleiðingar frá Indlandi á ný.

Að hefja ættleiðingar til Íslands frá fleiri löndum erlendis frá og opna þar með fyrir tækifæri fólks í þessari stöðu sem margt hefur reynt til þess að láta drauma sína rætast, að eitt ráðuneyti stjórni þeirra örlögum er mjög erfitt. Ákvörðunin liggur ekki hjá þeim sem óska eftir að ættleiða, né hjá samstarfsaðilum erlendis, heldur hjá Dómsmálaráðuneytinu. Þar eru völdin til að endurheimta þann valkost sem áður var í boði og sem fyrir marga er ekki spurning um þægindi eða val, heldur eina raunhæfa leiðin til að stofna fjölskyldu.

Þegar ákvörðunarvaldið liggur hjá einu ráðuneyti er mikilvægt að það sé tekið af alvöru, með heildarsýn og skilningi á því að bak við hverja umsókn er fólk sem hefur þegar gengið langa og erfiða leið. Fyrir suma er þetta ekki spurning um valfrelsi, heldur um það hvort nokkur leið sé yfirhöfuð fær.

Þetta snýst ekki um að gera lítið úr tæknifrjóvgun eða þeim árangri sem þar hefur náðst. Þetta snýst um að viðurkenna að hún er ekki lausn fyrir alla. Fyrir þann hóp þarf að tryggja raunhæfa, örugga og mannúðlega leið til fjölskyldumyndunar. Þegar slíkur valkostur er til staðar, bæði sögulega og með vilja samstarfsaðila erlendis, hlýtur það að vera á ábyrgð stjórnvalda að meta hvort rétt sé að halda honum lokuðum áfram.

Að lokum hlýtur að vera réttmæt krafa að stjórnvöld horfi á þessa stöðu í samhengi og með mannúð að leiðarljósi. Það er ekki nóg að úrræði virki fyrir marga, ef þau virka ekki fyrir alla. Samfélag sem vill kalla sig réttlátt og styðjandi þarf einnig að mæta þeim sem standa eftir þegar hefðbundnar leiðir lokast. Sú spurning vaknar hvort réttlætanlegt sé að halda möguleikanum um ættleiðingar frá Indlandi lokuðum. Á meðan ekkert breytist eru það ekki aðeins stjórnsýslulegar ákvarðanir sem tefjast, heldur líf fólks sem bíður eftir tækifæri til að stofna fjölskyldu.

Höfundur er ættleiddur frá Indlandi og háskólanemi.




Skoðun

Sjá meira


×