Lífið

Ragn­heiður fékk heila­blóð­fall á Spáni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ragnheiður Steindórsdóttir hefur verið að jafna sig á spítala á Málaga undanfarnar vikur en kemur heim til Íslands í dag.
Ragnheiður Steindórsdóttir hefur verið að jafna sig á spítala á Málaga undanfarnar vikur en kemur heim til Íslands í dag.

Leikkonan Ragnheiður Steindórsdóttir fékk heilablóðfall á Spáni milli jóla og nýárs og hefur legið á spítala í Málaga síðan. Hún kemur heim til Íslands í læknisfylgd í dag og hefur í kjölfarið endurhæfingu.

Börn Ragnheiðar, Steindór Grétar Jónsson og Margrét Dóróthea Jónsdóttir, greindu frá fregnunum í Facebook-færslu í gærmorgun. Þar hvöttu þau almenning til að styrkja Vonarbrú, almannaheillafélag sem hefur styrkt stríðshrjáðar fjölskyldur á Gasa, meðan Ragnheiður jafnar sig.

„Hún varð því miður fyrir því óláni að missa máttinn þegar hún var ein í gönguferð í sveitinni á Spáni á milli jóla og nýárs. Á ótrúlegan hátt náði hún að bjarga sér, vekja athygli íbúa á svæðinu og fá hjálp. Hún var flutt á spítala í Malaga í fylgd með Steindóri og þar kom í ljós að hún hafði fengið heilablóðfall,“ segir í færslunni.

„Mamma er alveg skýr í kollinum og enn hún sjálf eins og við þekkjum hana en þarf tíma og þjálfun til að endurheimta kraft í líkamanum,“ segir einnig.

Hlakkar til að takast á við endurhæfinguna

Ragnheiður verður flutt til Íslands í fylgd með lækni í dag og Steindór, syni sínum, og sé spennt að takast á við endurhæfinguna framundan. 

„Það verður líka gott að geta talað við heilbrigðisstarfsfólk á íslensku þó að mömmu hafi nánast tekist að læra spænsku frá grunni á þessum tveimur vikum á sjúkrahúsinu,“ segir í færslunni.

Ragnheiður Steindórsdóttir á langan leiklistarferil að baki.

Allir sem þekki Ragnheiði viti að hún hefur verið virk, öflug og lífsglöð og hafi látið sig málefni Palestínu varða með almannaheillafélaginu Vonarbrú.

„Með ósérhlífnu starfi hefur henni tekist með samstarfsfólki sínu og þeim sem styrkt hafa félagið að veita fjölda fjölskyldna á Gaza lífsbjörg. Við vitum að það mundi gleðja hana ef Vonarbrú fengi góð fjárframlög næstu vikurnar til að bæta upp fyrir fjarveru hennar. Við hvetjum því öll til að styrkja stríðshrjáðar barnafjölskyldur á Gaza með því að leggja inn á reikning almannaheillafélagsins Vonarbrúar,“ segir einnig í færslunni og fylgja þar reikningsupplýsingar um félagið með.

Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.