Skoðun

Málið of stórt fyrir þjóðina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Málið varðandi bókun 35 við EES-samninginn er of stórt til þess að afstaða almennings hafi áhrif á áform ríkisstjórnarinna um að koma frumvarpi um það í gegnum Alþingi. Þetta var haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanni Viðreisnar, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 7. janúar síðastliðinn. Þorgerður var þar innt eftir því hvort niðurstöður skoðanakannana, sem sýnt hafa mun fleiri andvíga frumvarpinu en hlynnta, hefðu áhrif í þeim efnum.

„Nei, það gerir það ekki því hér er um hrikalega stórt mál að ræða sem tengist því að við þurfum að hafa EES-samninginn virkan. Mér kemur ekkert á óvart að þeir sem eru á móti EES-samningnum, eins og Miðflokkurinn og í rauninni Morgunblaðið líka, að þeir muni draga það fram,“ sagði Þorgerður. Væntanlega afstöðu almennings. Hún breytti engu um áformin. Miðað við nýja könnun Prósents eru 58% andvíg málinu en 42% hlynnt af þeim sem tóku afstöðu með eða á móti.

„Við megum ekki sýna neinn veikan blett hvað þetta varðar og við ætlum okkur að klára bókunina á þessu þingi,“ sagði Þorgerður enn fremur. Áður hafa stjórnvöld þó iðulega sagt að málið væri í raun aðeins formsatriði. Frumvarpið felur sem kunnugt er í sér að innleitt regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum verði veittur forgangur á alla aðra almenna löggjöf hér á landi af þeirri einu ástæðu að það komi frá sambandinu.

Virtir lögspekingar hafa varað við því að þær breytingar, sem frumvarpið kveður á um, færu í bága við fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar. Þar á meðal Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor emeritus og helzti sérfræðingur landsins í Evrópurétti, Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar. En ríkisstjórnin lætur ekkert stöðva sig. Þar á meðal hvorki almenning né stjórnarskrá lýðveldisins.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×