Erlent

Bresk stjórn­völd segja við­brögð X „móðgandi“

Kjartan Kjartansson skrifar
Elon Musk er eigandi X og Grok. Viðbrögð fyrirtækisins við því að spjallmennið framleiði kynferðislegt efni af börnum og konum gegn vilja þeirra er að leyfa aðeins áskrifendum miðilsins að framleiða það.
Elon Musk er eigandi X og Grok. Viðbrögð fyrirtækisins við því að spjallmennið framleiði kynferðislegt efni af börnum og konum gegn vilja þeirra er að leyfa aðeins áskrifendum miðilsins að framleiða það. AP/Evan Vucci

Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar segir þau viðbrögð X við holskeflu kynferðislegs efnis af börnum á samfélagsmiðlinum að leyfa aðeins áskrifendum að búa það til „móðgandi“. Elon Musk er sagður hafa verið varaður ítrekað við óviðeigandi efni á miðlinum á undanförnum vikum.

X tilkynnti í dag að aðeins þeir sem væru með áskrift að samfélagsmiðlinum gætu nú notað spjallmennið Grok til þess að útbúa myndir tímabundið. Það voru viðbrögð miðilsins við harðri gagnrýni og rannsókn nokkurra ríkja á kynferðislegu efni af börnum og konum sem notendur X hafa látið Grok gera og birta fyrir sig.

Mikil umræða hefur átt sér stað á Bretlandi um kynferðislegu gervigreindarmyndirnar á X. Eftirlitsstofnunin Ofcom hefur málið nú til rannsóknar. Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur lýst framferði X og Grok sem ólöglegu og viðbjóðslegu.

Nú segir talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar að viðbrögð X að takmarka myndaframleiðsluna við borgandi áskrifendur að miðlinum sé óviðunandi.

„Þessi aðgerð breytir einfaldlega þessari gervigreindarþjónustu sem leyfir framleiðslu á ólöglegum myndum að söluvöru,“ hefur breska blaðið The Guardian eftir talsmanninum.

Breytingin væri ekki lausn á vandanum og í raun móðgandi við fórnarlömb kvenhaturs og kynferðislegs ofbeldis.

Nokkur þrýstingur hefur verið á bresku ríkisstjórnina að grípa til aðgerða gegn X og að hún og fulltrúar hennar hætti að nota miðilinn. Þingmenn Verkamannaflokksins eru sagðir hvetja ríkisstjórnina til þess að hætta að nota X til að ganga fram með góðu fordæmi.

Eftir breytinguna geta áskrifendur sem greiða átta dollara á mánuði, jafnvirði rúmra þúsund króna, enn látið Grok framleiða kynferðislegar myndir af konum sem er sjáanlegar öllum notendum, óháð því hvort þeir séu áskrifendur eða ekki.

Ósáttur við tepruskap Grok

Heimildir CNN-fréttastofunnar innan X herma að Musk, eigandi miðilsins og Grok, hafi lengi talað fyrir því að gefa notendum meira frelsi í notkun spjallmennisins. Hann hefur lýst sjálfum sér sem fortakslausum tjáningarfrelsissinna og gagnrýnt ætlaða ritskoðun á samfélagsmiðlum.

Musk er þannig sagður hafa lýst óánægju sinni með takmarkanir á mynda- og myndbandaframleiðslu Grok á fundi með starfsmönnum xAI, sem þróar gervigreindina, á fundi í síðustu viku.

Starfsmenn X hafi á undanförnum vikum ítrekað varað við því innanhúss, meðal annars við Musk sjálfan, að Grok framleiddi óviðeigandi efni.

Þrír starfsmenn í öryggisdeild X tilkynntu um afsagnir sínar um svipað leyti og Musk messaði yfir starfsmönnum xAI um ritskoðun Grok. 

Fyrirtækið er sagt hafa rekið helming teymisins sem vann að öryggismálum miðilsins. Starfsmenn eru þá sérstaklega sagðir hafa óttast að Grok gæti verið notað til þess dreifa ólöglegum eða skaðlegum myndum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Musk lætur krukka í Grok með neikvæðum afleiðingum fyrir ímynd X. Í fyrra fjarlægði fyrirtækið fjölda færslna frá Grok þar sem spjallmennið lofaði Adolf Hitler.

Musk, sem aðhyllist sjálfur hvíta þjóðernishyggju, hefur ítrekað kvartað undan því að Grok gefi notendum svör um menn og málefni sem samrýmist ekki hugmyndafræði hans sjálfs og boðað að hann ætlaði að breyta forritinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×