Skoðun

Börnin okkar eiga betra skilið en ó­kunnugar af­leysingar

Kristín Kolbrún Waage Kolbeinsdóttir skrifar

Mannekluvandi leikskóla Reykjavíkurborgar hefur nú verið viðvarandi í fjölda ára. Viðbrögð borgarinnar við vandanum eru afskaplega aum en innan borgarinnar er starfandi svokölluð afleysingastofa með starfsfólk sem stekkur inn í þau störf sem þarf að leysa. Þetta kann að virðast skynsamleg skammtímalausn en er í raun plástur á djúpt kerfislegt vandamál.

Staðreyndin er sú að lokanir leikskóla vegna manneklu eru tífalt fleiri í Reykjavík en hjá nágrannasveitarfélögum. Það eitt og sér bendir til þess að vandinn liggi ekki í ytri aðstæðum heldur í stjórnun, forgangsröðun og starfsumhverfi innan borgarinnar sjálfrar. Þegar slíkur munur blasir við er óábyrgt að líta framhjá rót vandans og einblína þess í stað á bráðabirgðalausnir.

Afleysingar eru að jafnaði fólk sem börnin þekkja ekki. Fyrir ung börn skiptir öryggi, stöðugleiki og tengslamyndun gríðarlega miklu máli. Að fá sífellt nýjar manneskjur inn í sitt daglega umhverfi skapar óöryggi og rýrir traust og það á stað þar sem börn eiga að upplifa öryggi, festu og umhyggju.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið, ekki geymsla eða gæsla. Þar fer fram faglegt uppeldis- og menntastarf sem krefst þekkingar, reynslu og tengsla. Þegar brugðist er við manneklu með afleysingum er verið að draga úr mikilvægi þessa starfs og vanmeta bæði börnin og það fagfólk sem þar starfar.

Reykjavíkurborg þarf að hysja upp um sig. Lausnin felst ekki í endalausum plástrum heldur í því að gera starf á leikskóla að raunverulega eftirsóknarverðum starfsvettvangi: bæta kjör, starfsumhverfi og hlúa að fagmennsku þess frábæra fólks sem velur að sinna okkar allra minnstu. Ef þetta er hægt í öðrum sveitarfélögum hvers vegna ekki hjá Reykjavíkurborg?

Börnin okkar eiga betra skilið.

Höfundur er foreldrafræðingur og uppeldisráðgjafi.




Skoðun

Sjá meira


×