Skoðun

Villi er allt sem þarf

Birgir Liljar Soltani skrifar

Fram undan er mikilvægt prófkjör í Reykjanesbæ þar sem Sjálfstæðisflokkurinn velur sér nýjan oddvita, leiðtoga sem á að leiða flokkinn og bæinn inn í framtíðina. Fyrir mig sem ungan mann í Reykjanesbæ er valið skýrt: Ég kýs Vilhjálm Árnason til að leiða okkur sem bæjarstjóri inn í nýja tíma.

Vilhjálmur hefur alla burði til að verða frábær bæjarstjóri. Hann sameinar reynslu, yfirvegun og skýra sýn á framtíðina, en gleymir aldrei rótunum né því sem skiptir venjulegt fólk máli í daglegu lífi.

Villi hefur 13 ára reynslu sem þingmaður þar sem hann hefur staðið fast á hagsmunum Suðurnesja. Hann hefur unnið að raunverulegum breytingum sem hafa skilað sér í bættum lífsgæðum, öflugra atvinnulífi og sterkari innviðum. Þessi reynsla skiptir máli, sérstaklega nú þegar Reykjanesbær stendur á krossgötum. Staðan í bænum er alvarleg.

Núverandi meirihluti hefur lengt biðlista á leikskólum, vanrækt íþróttamál barna og ungmenna, eytt langt umfram efni, hækkað álögur á íbúa og boðar nú stefnu sem mun draga úr fjölbreytni í húsnæðismálum. Þetta er ekki sú framtíð sem við viljum sjá og er ekki til þess fallin að laða að ungt fjölskyldufólk né halda því sem fyrir er.

Ef þessari vegferð verður haldið áfram er raunveruleg hætta á að Reykjanesbær missi sérstöðu sína og þróist í „Litlu-Reykjavík“, eins og oddviti Samfylkingarinnar vill, með sama skipulagsleysi, sömu skattbyrði og sama áhugaleysi á málefnum barnafjölskyldna. Það getum við ekki sætt okkur við.

Spurningin sem við verðum að svara er einföld: Ætlum við að sitja hjá og horfa á þetta gerast, eða ætlum við að taka ábyrgð, grípa til aðgerða og snúa þróuninni við?

Með Vilhjálm Árnason í forystu höfum við tækifæri til að byggja upp bæ sem stendur með fjölskyldum, styður við unga fólkið, rekur ábyrga fjármálastefnu og leiðir bæinn inn í nýtt sóknartímabil. Það er sú framtíð sem ég og aðrir bæjarbúar trúum á.

Ég hvet alla til að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og styðja Villa Árna til að leiða Reykjanesbæ inn í framtíðina.

Höfundur er ungur Keflvíkingur, hlaðvarpsstjórnandi og í stjórn Heimis - félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.




Skoðun

Sjá meira


×