Uppgjörið: Valur - Stjarnan 102-105 | Gestirnir héldu út Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 8. janúar 2026 21:42 Stjörnumenn þurftu að hafa fyrir hlutunum í kvöld, þrátt fyrir að hafa náð góðu forskoti. Vísir/Diego Stjarnan vann óþarflega nauman þriggja stiga sigur er liðið heimsótti Val í stórleik 13. umferðar Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld, 102-105. Stjörnumenn léku við hvern sinn fingur í upphafi leiks og náði strax öruggu forskoti. Gestirnir skoruðu fyrstu 12 stig leiksins og neyddu Valsmenn í snemmbúið leikhlé, en það breytti litlu og Stjarnan hélt áfram að þjarma að heimamönnum. Á tímabili var Ægir Þór Steinarsson búinn að skora 13 stig fyrir Stjörnuna gegn samanlögðum fimm stigum allra Valsmanna. Valsliðið náði þó smá takti undir lok 1. leikhluta, en að honum loknum var staðan21-35, Stjörnunni í vil. Valsmenn héldu ágætis takti í upphafi 2. leikhluta, en eftir því sem á hann leið náðu Stjörnumenn yfirhöndinni á nýjan leik. Stjarnan skoraði hvorki fleiri né færri en 61 stig í fyrri hálfleik og var með 21 stigs forystu þegar flautað var til hlés og liðin gengu til búningsherbergja. Framan af 3. leikhluta leit út fyrir að sigur Stjörnumanna yrði svo gott sem formsatriði. Gestirnir náðu mest 27 stiga forskoti og lítið sem ekkert sem benti til þess að Valsmenn myndu snúa taflinu við. Heimamenn náðu hins vegar á einhvern ótrúlegan hátt að búa til æsispennandi lokamínútur. Góður kafli undir lok 3. leikhluta sá til þess að Valur minnkaði muninn niður í 11 stig og um miðbik þess fjórða minnkaði liðið muninn niður fyrir tíu stig í fyrsta skipti síðan í stöðunni 3-12. Valsmenn söxuðu hægt og bítandi á forskot Stjörnunnar það sem eftir lifði leiks og Keyshawn Woods setti niður þrist til að koma stöðunni í 97-102 þegar 15 sekúndur voru til leiksloka. Valsliðið náði að minnka muninn niður í tvö stig þegar um fimm sekúndur voru eftir, en nær komust heimamenn ekki og niðurstaðan varð að lokum óþarflega naumur þriggja stiga sigur Stjörnunnar, 102-105. Atvik leiksins Upphafsmínútur leiksins voru hreint út sagt ótrúlegar og Valsmenn virtust einfaldlega ekki geta sett boltann ofan í körfuna. Að líta á stigatöfluna og sjá að Ægir Þór Steinarsson væri búinn að skora 13 stig, en allt Valsliðið bara fimm, var vægast sagt áhugavert. Stjörnur og skúrkar Seth Leday var mikilvægur í liði Stjörnunnar í kvöld og skoraði 24 stig fyrir liðið, ásamt því að rífa niður tólf fráköst. Ægir Þór Steinarsson var algjörlega óstöðvandi í byrjun leiks og skoraði 15 stig fyrir Stjörnuna í 1. leikhluta, en endaði með 21 stig og níu stoðsendingar. Í liði Vals var Lazar Nikolic atkvæðamestur með 24 stig og ellefu fráköst. Hins vegar hafa leikmenn á borð við Kára Jónsson og Callum Lawson oft átt betri daga. Kári endaði með tíu stig og hitti aðeins úr fjórum af ellefu skotum sínum. Callum Lawson gerði ögn betur og setti niður fimm af tíu skotum og endaði með tólf stig. Dómararnir Þeir Sigmundur Már Herbertsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Ingi Björn Jónsson komust að mestu vel frá kvöldinu. Auðvitað eru alltaf einhverjir vafadómar í heilum körfuboltaleik sem einhverjir eru ósáttir við, en heilt yfir hafði þríeykið gott vald á leiknum. Stemning og umgjörð Eins og svo oft áður var umgjörð Valsmanna til fyrirmyndar. Hins vegar var heldur róleg stemning í húsinu, enda höfðu stuðningsmenn Vals litla ástæðu til að skemmta sér stærstan hluta leiksins. Bónus-deild karla Valur Stjarnan
Stjarnan vann óþarflega nauman þriggja stiga sigur er liðið heimsótti Val í stórleik 13. umferðar Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld, 102-105. Stjörnumenn léku við hvern sinn fingur í upphafi leiks og náði strax öruggu forskoti. Gestirnir skoruðu fyrstu 12 stig leiksins og neyddu Valsmenn í snemmbúið leikhlé, en það breytti litlu og Stjarnan hélt áfram að þjarma að heimamönnum. Á tímabili var Ægir Þór Steinarsson búinn að skora 13 stig fyrir Stjörnuna gegn samanlögðum fimm stigum allra Valsmanna. Valsliðið náði þó smá takti undir lok 1. leikhluta, en að honum loknum var staðan21-35, Stjörnunni í vil. Valsmenn héldu ágætis takti í upphafi 2. leikhluta, en eftir því sem á hann leið náðu Stjörnumenn yfirhöndinni á nýjan leik. Stjarnan skoraði hvorki fleiri né færri en 61 stig í fyrri hálfleik og var með 21 stigs forystu þegar flautað var til hlés og liðin gengu til búningsherbergja. Framan af 3. leikhluta leit út fyrir að sigur Stjörnumanna yrði svo gott sem formsatriði. Gestirnir náðu mest 27 stiga forskoti og lítið sem ekkert sem benti til þess að Valsmenn myndu snúa taflinu við. Heimamenn náðu hins vegar á einhvern ótrúlegan hátt að búa til æsispennandi lokamínútur. Góður kafli undir lok 3. leikhluta sá til þess að Valur minnkaði muninn niður í 11 stig og um miðbik þess fjórða minnkaði liðið muninn niður fyrir tíu stig í fyrsta skipti síðan í stöðunni 3-12. Valsmenn söxuðu hægt og bítandi á forskot Stjörnunnar það sem eftir lifði leiks og Keyshawn Woods setti niður þrist til að koma stöðunni í 97-102 þegar 15 sekúndur voru til leiksloka. Valsliðið náði að minnka muninn niður í tvö stig þegar um fimm sekúndur voru eftir, en nær komust heimamenn ekki og niðurstaðan varð að lokum óþarflega naumur þriggja stiga sigur Stjörnunnar, 102-105. Atvik leiksins Upphafsmínútur leiksins voru hreint út sagt ótrúlegar og Valsmenn virtust einfaldlega ekki geta sett boltann ofan í körfuna. Að líta á stigatöfluna og sjá að Ægir Þór Steinarsson væri búinn að skora 13 stig, en allt Valsliðið bara fimm, var vægast sagt áhugavert. Stjörnur og skúrkar Seth Leday var mikilvægur í liði Stjörnunnar í kvöld og skoraði 24 stig fyrir liðið, ásamt því að rífa niður tólf fráköst. Ægir Þór Steinarsson var algjörlega óstöðvandi í byrjun leiks og skoraði 15 stig fyrir Stjörnuna í 1. leikhluta, en endaði með 21 stig og níu stoðsendingar. Í liði Vals var Lazar Nikolic atkvæðamestur með 24 stig og ellefu fráköst. Hins vegar hafa leikmenn á borð við Kára Jónsson og Callum Lawson oft átt betri daga. Kári endaði með tíu stig og hitti aðeins úr fjórum af ellefu skotum sínum. Callum Lawson gerði ögn betur og setti niður fimm af tíu skotum og endaði með tólf stig. Dómararnir Þeir Sigmundur Már Herbertsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Ingi Björn Jónsson komust að mestu vel frá kvöldinu. Auðvitað eru alltaf einhverjir vafadómar í heilum körfuboltaleik sem einhverjir eru ósáttir við, en heilt yfir hafði þríeykið gott vald á leiknum. Stemning og umgjörð Eins og svo oft áður var umgjörð Valsmanna til fyrirmyndar. Hins vegar var heldur róleg stemning í húsinu, enda höfðu stuðningsmenn Vals litla ástæðu til að skemmta sér stærstan hluta leiksins.